Yfirlýsing frá Tollvarðafélagi Íslands vegna metfjölda haldlagðra fíkniefna við tolleftirlit á Keflavíkurflugvelli árið 2025.
Tollvarðafélag Íslands vill vekja sérstaka athygli á þeim árangri sem tollgæslan hefur náð í baráttunni gegn fíkniefnasmygli á landamærum Íslands á árinu 2025. Miðað við nýjustu tölur frá lögreglunni á Suðurnesjum, sem birtust í grein á mbl.is þann 1. júní 2025, hefur aldrei áður meira magn af kókaíni verið haldlagt á jafn skömmum tíma á Keflavíkurflugvelli. Þessar tölur endurspegla mikilvægi öflugrar tollgæslu við Keflavíkurflugvöll.
Á fyrstu fimm mánuðum ársins 2025 hafa tollverðir lagt hald á eftirfarandi magn af fíkniefnum við tolleftirlit á Keflavíkurflugvelli:
- 40,26 kg af kókaíni, sem er metfjöldi á fyrstu fimm mánuðum ársins
- 9,78 lítrar af kókaínvökva
- 20.576 töflum af oxycontin og eftirlíkingum þess, sem eru mjög ávanabindandi og geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið
- 109,648 kg af kannabisefnum, sem er verulegt magn miðað við heildartölur ársins 2024, þegar samtals voru haldlögð 172,706 kg af kannabisefnum
Tollvarðafélag Íslands vill leggja sérstaka áherslu á mikilvægi samstarfs við lögregluna á Suðurnesjum sem hefur verið gott og farsælt, sem og önnur lögregluembætti víðsvegar um landið. Öflugt tolleftirlit og gott samstarf við lögreglu er lykilatriði í baráttunni við skipulagða brotastarfsemi sem nær þvert yfir landamæri og hefur skaðleg áhrif fyrir samfélagið í heild.
Það er jafnframt brýnt að tollgæslan njóti á hverjum tíma skýran og stöðugan stuðning frá stjórnvöldum. Til að tryggja öflugt og árangursríkt tolleftirlit þarf að ríkja virkt og markvisst samtal milli stjórnvalda og tollgæslunnar um þau fjölbreyttu og síbreytilegu verkefni sem tollgæslan tekst á við í sínum störfum.
Tollvarðafélag Íslands vill koma á framfæri þökkum og hvatningu til þeirra tollvarða sem standa vaktina við krefjandi og mikilvægt tolleftirlit á Keflavíkurflugvelli sem og þakkir og hvatningarorð til tollvarða sem sinna tolleftirliti í höfnum landsins og við eftirlit með vöruinnflutningi með góðum árangri.
Starf þeirra er ómissandi þáttur í því að tryggja öryggi og velferð almennings.
F.h. Tollvarðafélags Íslands,
Ingvi Steinn Jóhannsson formaður