Tollvarðafélag Íslands (TFÍ) vill þakka Andrési Ara Ottóssyni, aðstoðaryfirtollverði á Keflavíkurflugvelli, fyrir frábært starf og ómetanlegt framlag til tollgæslunnar í tæp 42 ár.
Andrés Ari hóf störf í tollgæslunni árið 1983 í Reykjavík. Árið 1986 fékk Andrés Ari embætti hjá Sýslumanninum í Keflavík, sem var síðan flutt yfir á Keflavíkurflugvöll árið 2007 þar sem hann hefur sinnt starfi sem aðstoðaryfirtollvörður.
Föstudaginn 28.mars sl. var síðan haldin kveðjuveisla á Keflavíkurflugvelli þar sem bæði fyrrverandi og núverandi samstarfsmenn komu saman til að þakka honum fyrir samstarfið og óska honum velfarnaðar. Vel var mætt af gestum í kveðjuveisluna sem er til marks um það góða samstarf sem Andrés Ari hefur átt með samferðamönnum sínum í tollgæslunni gegnum tíðina.
Andrés Ari hefur verið stór hluti af góðri heild, bæði með sinni fagmennsku og með þátttöku í félagsstarfi, sem hefur gert vinnustaðinn að enn betri stað. Hann hefur ávallt unnið af alúð og metnaði og verið góður samstarfsfélagi. Ávallt verið tilbúinn að hjálpa til og leiðbeina þegar þörf var á þekkingu hans í verkefnum innan tollgæslunnar. Þá hefur hann verið virkur í félagsmálum TFÍ, meðal annars sem stjórnarmaður, í kjörstjórn sem og orlofsnefnd. Hann hefur ávallt verið tilbúinn að bjóða sig fram til góðra verka og lagt sitt af mörkum fyrir samstarfsfólk sitt. Það hefur því verið ómetanlegt fyrir félag eins og TFÍ að eiga slíkan félagsmann að gegnum tíðina.
Andrési Ara er þakkað kærlega fyrir samstarfið og óskumvið honum alls hins besta í næsta kafla lífsins eftir farsælan starfsferil.
F.h. TFÍ,
Ingvi Steinn Jóhannsson, formaður