Yfirlýsing frá Tollvarðafélagi Íslands

Tollvarðafélagið vill lýsa yfir mikilli ánægju með framúrskarandi vinnu tollvarða á Keflavíkurflugvelli, sem komu í veg fyrir einn stærsta innflutning af stórhættulegum ólöglegum lyfjum sem nokkru sinni hefur verið haldlagt hér á landi.

Um var að ræða 20.000 falsaðar Oxycontin-töflur sem innihéldu ekki oxýkódon, heldur afar öflugt og lífshættulegt efni sem kallast Nitazene. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni getur efnið verið mörg hundruð sinnum sterkara en oxýkódon og jafnvel brotabrot af einni töflu getur reynst mannskætt. Sú staðreynd að þessi nýju og hættulegu efni hafi náð til Íslands á innan við tveimur mánuðum frá því þeirra varð fyrst vart í Evrópu undirstrikar alvarleika málsins og mikilvægi öflugs tolleftirlits á landamærum.

Við í Tollvarðafélagi Íslands viljum leggja ríka áherslu á mikilvægi starfa tollvarða á landamærum. Tollverðir gegna lykilhlutverki í að tryggja öryggi samfélagsins með því að koma í veg fyrir að hættuleg efni berist inn í landið. Tollverðir vinna við krefjandi aðstæður þar sem fagmennska, þekking og skjót viðbrögð ráða úrslitum. Mikilvægt er að tollgæslan búi yfir þeim úrræðum, tæknibúnaði, starfsaðstöðu og mönnun sem þarf til að takast á við þær síbreytilegu og alvarlegu ógnir sem skapast á landamærum af hálfu skipulagðrar brotastarfsemi og nýlegt dæmi sýnir glöggt hversu öflug og vel ígrunduð viðbrögð þurfa að vera til staðar til að verja almannaöryggi.

Tollvarðafélagið vill jafnframt lýsa yfir ánægju með það góða samstarf sem ríkt hefur milli tollgæslu og lögreglunnar á Suðurnesjum, sem og við önnur lögregluembætti um allt land. Slík samvinna er nauðsynleg til að bregðast við vaxandi hættu af hálfu skipulagðrar brotastarfsemi sem sýnir skeytingarleysi á öryggi eða velferð fólks í samfélaginu.

Tollvarðafélagið mun áfram standa vörð um öryggi samfélagsins af ábyrgð og festu. Við erum stolt af tollvörðum landsins og störfum þeirra í þágu almannaheilla.

 

Ingvi Steinn Jóhannsson,
Formaður TFÍ