Glæpaaldan í Svíþjóð kemur tollvörðum ekki á óvart.

Glæpaaldan í Svíþjóð kemur tollvörðum ekki á óvart – RÚV.is (ruv.is)

Það er óskiljanlegt að á sama tíma og sænska og danska tollgæslan byggja af krafti upp tollgæsluna og lögregluna, þá sé ekkert slíkt í hyggju hér á landi. Reyndar er það svo að litlar fréttir hafa enn borist af því hvort og þá hvernig á hvaða hátt á að framfylgja aðhaldskröfu hjá tollgæslunni, sem öfugt við lögreglu á að draga saman seglin, þótt ekki verði um hrun að ræða. Frekar þyrfti að styrkja landamæravarnir en að veikja þær.

Á sama tíma flæða fíkniefni inn í landið sem aldrei fyrr. Formenn sænsku tollvarðafélaganna hafa varað við þessu ástandi ásamt félögum sínum í lögreglunni í a.m.k. 10 ár. Sem yfirmaður hjá tollgæslunni og sem formaður Tollvarðafélags Íslands, hef ég því hlustað á þessi viðvörunarorð í „steríó“ jafn lengi. Það er skrítið að til þess þurfi að koma að skera niður hjá tollgæslu, sér í lagi í miðjum ópíóðafaraldri þegar önnur fíkniefni og vopn streyma inn í landið. Spyrnum því við fótum!

Kannski að Alþingi ætti að ræða þessi mál við gerð fjárlaga og spyrja fjármálaráðherra út í þessa forgangsröðun? Allt heilvita fólk veit að samfélagslegur kostnaður af því að vanrækja tollgæslu eða lögreglu er gríðarlegur. Ég missti dóttur mína úr lyfjafíkn fyrir nokkrum árum og veit að slíkt veldur slíku sálartjóni fyrir þá sem í því lenda að þeir jafna sig aldrei. Enginn á að lenda í því sem henti mig og mína fjölskyldu eða þúsundir annarra Íslendinga.

Ég lít á það sem heilaga skyldu mína að verja landamæri Íslands með öllum tiltækum ráðum fyrir glæpalýð, vopnum og fíkniefnum. Hlustum á viðvörunarorð formanns sænskra tollvarða og gerum þetta á meðan við enn höfum stjórn á ástandinu.

Guðbjörn Guðbjörnsson

Yfirtollvörður