Fundarsköp Tollvarðafélags Íslands

1. gr.
Formaður setur fundi og stjórnar þeim. Hann getur skipað fundarstjóra, telji hann það heppilegra.

2. gr.
Verksvið fundarstjóra.
Fundarstjóri stjórnar fundum. Vilji hann taka þátt í umræðum, skal hann kveðja annan til að taka við fundarstjórn á meðan. Rísi ágreiningur um fundarsköp, úrskurðar fundarstjóri.

3. gr.
Fundarstjóri skal gefa mönnum orðið í sömu röð og þeir hafa kvatt sér hljóðs. Ef fleiri en einn kveðja sér hljóðs samtímis, úrskurðar fundarstjóri í hvaða röð þeir skulu taka til máls.
Ræður skal flytja úr ræðustól.

4. gr.
Engir aðrir en framsögumenn fyrir nefndarálitum mega taka oftar en tvisvar til máls við sömu umræðu. Fundarstjóra er leyfilegt að takmarka ræðutíma með samþykki fundarins.

5. gr.
Fundarstjóri gætir góðrar reglu á fundinum. Ef ræðumaður heldur sér ekki við umræðuefnið eða viðhefur ótilhlýðileg orð, varðar það áminningu frá fundarstjóra, sem þá hefur vald til að taka orðið af ræðumanninum, ennfremur getur fundarstjóri vísað félagsmönnum af fundi, sé hegðun þeirra eða ástand ósæmilegt.

6. gr.
Eigi má nema með leyfi fundarstjóra lesa upp prentað né skrifað mál annað en nefndarálit og tillögur.
Tillögur og atkvæðagreiðsla.

7. gr.
Allar tillögur skal gera skriflega og afhenda fundarstjóra. Bera skal þær undir atkvæði í sömu röð og þær hafa verið lagðar fram, sbr. þó 11. gr. Séu fleiri en ein tillaga í sama máli, skal þá fyrst bera upp þá tillöguna, sem lengst gengur.

8. gr.
Breytingatillögu skal bera upp á undan aðaltillögu. Breytingartillögu, sem kollvarpar eða breytir aðaltilgangi annarrar tillögu, má ekki taka til greina.

9. gr.
Breytingartilögur um að fella úr, bæta í eða auka við tillögu skal bera upp þannig að lesa fyrst upp aðaltillöguna óbreytta, því næst breytingarnar og loks aðaltillöguna eins hún yrði með breytingunum.

10. gr.
Fundarstjóri hefur heimild til þess að bera tillögu upp í tveimur eða fleiri liðum, en þó því aðeins, að hver liður sé sjálfstæður og að skiptingin geri tillöguna ekki óljósa.

11. gr.
Forgangstilögur eru, og í þessari röð:
1. Tillaga um að ganga þegar til atkvæða.
2. Tillaga um að vísa máli frá.
3. Tillaga um að taka fyrir næsta mál á dagskrá.
4. Tillaga um að fresta máli.
Tillögur undir lið 1. má ekki ræða.

12. gr.
Atkvæðagreiðsla fer fram með handauppréttingu, nema þegar um kosningar er að ræða. Falli atkvæði jöfn er tillaga felld.

Samþykkt á fundi í Tollvarðafélagi Íslands
29. janúar 1973.