Ágætu tollverðir
Það er frekar óvenjulegt að stjórn og samninganefnd standi í því á sama tíma og það í kringum 1. maí að standa í samningum bæði í aðalkjara- og stofnanasamningum. Reyndar er það svo að samningar allra opinberra starfsmanna eru nú lausir og því miður virðist lausn ekki í sjónmáli, þar sem ákveðnar kröfur eru uppi t.a.m. varðandi jöfnun launa á milli launamarkaða, þ.e. hins opinbera og almenns vinnumarkaðar. Þarna er sérstaklega talað um að ‚einkeypisstéttir‘ eigi eitthvað inni og við teljumst víst til þeirra. Staða okkar er hins vegar í mörgu tilliti erfiðari, þar sem við sem fagstétt höfum aðeins einn vinnuveitanda eða tollgæsluna, Skattinn. Áður fyrr gátu tollverðir þó flakkað á milli embætta. Að auki er það svo að þegar einhver er búinn að eyða 10-20 árum í að sérhæfa sig í tollamálum þá er ólíklegt að einhver fyrir utan Skattinn sé til í að greiða fyrir slíka þekkingu nema kannski hjá tollmiðlurum í ófaglærðum og lágt launuðum störfum.
Annað sem ég tel mikilvægt og ákvað að vera með erindi og pallborðsumræður um á síðasta aðalfundi eru öryggismál tollvarða. Ég fékk á fundinn frábæra gesti eða Helga Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknara, Grím Grímsson yfirlögregluþjón og Fjölni Sæmundsson formann Landssambands lögreglumanna, auk þess sem ég var sjálfur með stutt erindi. Á aðalfundi TFÍ kom ýmislegt fram og mjög gott hvað frummælendur voru skýrmæltir og sammála, þótt ekki sé hægt að greina frá því hér, þar sem að þessi pistill mun einnig birtast á heimasíðu TFÍ. Engu að síður er ljóst að við – líkt og lögreglumen, saksóknarar og dómarar – þurfum að velta þessum hlutum vel og vandlega fyrir okkur og til hvaða ráðstafana við þurfum að grípa. Rétt eftir aðalfund TFÍ átti ég mjög góðan, gagnlega og langan fund með nýjum varaformanni TFÍ Ingva Steini Jóhannssyni aðalvarðstjóra á Keflavíkurflugvelli. Þar tjáði hann mér að tímasetning mín og áherslur á hótanir í garð löggæslumanna hefðu sennilega ekki getað komið fram á betri tíma. Ástæðan er stigmögnun slíkra hótana á liðnum árum. Því miður hafa þessar hótanir ekki verið nógu vel skráðar, þrátt fyrir að skýrt verklag liggi fyrir um slík. Þarna þurfum við að líta í eigin barm og tilkynna allar hótanir og ofbeldisverk. Þannig er ljóst að allar fyrrgreindar stéttir munu gera kröfu um að sú breyting er orðið hefur á öryggi löggæslustétta verði metin til launa, en til að hægt sé að gera slíkar kröfur þurfa staðreyndir að liggja fyrir.
Ég veit að mörg ykkar eru þeirrar skoðunar að kannski leggjum við of mikla áherslu á hið svokallaða ‚65 ára lífeyrisaldursmál‘. Sjálfur er ég – Guði sé lof – fullur af krafti næstum 62 ára gamall, en það er ekki tilfellið hjá öllum og á þetta ekki síst við um vaktavinnufólk. Að þessu sögðu vil ég segja að ég mun leggja allan minn kraft í að við njótum sömu lífeyrisréttinda og lögreglumenn og fangaverðir. Við munum stefna fjármálaráðherra í maí og þá mun málið taka nýja stefnu. Stefnan er klár en við þurfum að útvega lögmanni okkar Daníel Isebarn viðbótarupplýsingar, sem liggja að mestu fyrir. Hvað aðalkjarasamninga varðar sé ég eiginlega enga aðra lausn en að málinu verði vísað í Gerðardóm. Varðandi stofnanasamningana lofa ég ykkur að ég verð harður í horn að taka, þótt ljóst sé strax frá upphafi slíkra viðræðna að stjórn TFÍ mun ekki takast að gera alla fullkomlega ánægða með niðurstöðun. Það er hins vegar ólíðandi að við séum skör lægra sett en aðrir starfsmenn Skattsins þegar kemur að launum og það er að mínu mati staðan í dag.
Við höfum ekki verkfallsrétt en ég lofa ykkur hér og nú og á 1. maí að ég mun berjast fyrir ykkur um hæl og hnakka á næstu vikum og á það bæði við í kjarasamningum sem og í 65 ára lífeyrisaldursmálinu.
Aðeins eina kröfu hef ég til ykkar kæru félagar og hún er að þið standið 100% á bak við stjórn TFÍ á þessum viðsjárverðu tímum og þá munum við 100% standa okkur í stykkinu að verja ykkar hagsmuni.