Ályktun aðalfundar TFÍ

Félagsmenn Tollvarðafélags Íslands samþykktu einróma meðfylgjandi ályktun á aðalfundi félagsins föstudaginn 8. mars 2019
 
Aðalfundur Tollvarðafélags Íslands leggur til að hætt verði við öll áform um sameiningu embættis Tollstjóra við Ríkisskattstjóra eða aðrar stofnanir. Ástæðan er slæm reynsla af slíkri tilraunastarfsemi, m.a. í Danmörku. Félagsmenn óttast að þær ákvarðanir sem verða teknar muni veikja tollgæslu í landinu.
 
Nefnd skipuð af fjármála- og efnahagsráðherra um aukna skilvirkni í skattframkvæmd, álagningu og innheimtu opinberra gjalda skilaði inn tillögu að uppskiptingu á embætti Tollstjóra sem hljóðar svo að innheimtuhluti Tollstjóra verði færður undir embætti Ríkisskattstjóra. Alþingi hefur samþykkt tillögu nefndarinnar og við þetta hefur TFÍ ekkert að athuga. Nefndin á eftir að taka afstöðu til tollasviðs Tollstjóra. Í nefndinni situr enginn fulltrúi TFÍ og ekkert samráð hefur verið haft við félagið. Rétt er að benda á að meirihluti þeirra sem starfa á tollasviði embættisins eru tollverðir.
 
Aðalfundur TFÍ telur að embætti Tollstjóra eigi áfram að vera sjálfstæð stofnun undir heiti Tollstjóra sem er tákn tollgæslunnar í landinu.