Miklar breytingar ekki nýjar af nálinni – Stiklað á stóru í merkilegri og langri sögu Tollvarðafélags Íslands
Oft á tíðum höldum við annars vegar hafi að aðeins miklar breytingar átt sér stað fyrr á tímum og hins vegar finnst okkur að alltaf séu að verða afdrifaríkar og stundum erfiðar breytingar á okkar högum og okkar starfsumhverfi. Við leiðum hins vegar aldrei hugann að því að hvoru tveggja getur auðvitað verið rétt. Lífið er oft á tíðum krappur dans við örlagadísirnar og lítið annað þýðir en að halda þeirri fótamennt áfram. Í afmælisveislum horfa menn oft til baka en sjaldan inn í framtíðina. Ástæðan er sennilega að erfitt er að spá, sérstaklega um framtíðina. Okkur sem stéttarfélagi er skylt að horfa til fortíðar því hún kemur og við þurfum að vera undirbúin. En fyrst til fortíðar.
Segja má að sýslumenn hafi gegnt hlutverki tollgæslu á tímum einokunarverslunar frá 1602-1787. Erindisbréf fyrir vaktara var gefið út af konungi árið 1778 og sinntu þeir almennri löggæslu og voru því í senn lögreglumenn og tollverðir. Á þessum tíma var mestur hluti aðflutningsgjalda hins vegar innheimtur í Danmörku. Upphaf tollheimtu á Íslandi má rekja allt til ársins 1872 þegar í gildi gekk konungleg tilskipun um innheimtu tolls af áfengum drykkjum öðrum en áfengu öli en bæjarfógetaembættið í Reykjavík annaðist tollheimtuna. Árið 1911 síðan lagður tollur á áfengi, öl, gosdrykki, tóbak, kaffi, te, sykur, síróp, súkkulaði, kakó, brjóstsykur og konfekt og eðli málsins samkvæmt færðist þá enn meira fjör í leikinn hjá tollvörðum og öðrum starfsmönnum bæjarafógeta í tollamálum.
Um 1910 er ákveðið að setja á stofn tollgæslu í Reykjavík, sem var hluti af embætti Lögreglustjórans í Reykjavík. Það var fyrst 1918 að 2 menn eru sagðir vera næturverðir við Reykjavíkurhöfn, sem voru tollverðir síns tíma. Um 1918 sáu einn til fjórir lögregluþjónar um tollgæsluþáttinn hjá lögreglustjóra en árið 1921 eru tveir fastir tollverðir ráðnir til starfa.
Embætti tollstjóra í Reykjavík var stofnað 1929 og var fyrirkomulag tollheimtu og tollgæslu svipað næstu áratugi. Stofnuð var sérstök vöruskoðunardeild árið 1934 en aðstæður fyrir starfsmenn voru erfiðar fyrstu árin þótt tollvörðum hafi fjölgað nokkuð hratt. Árið 1934 fékk tollgæslan mun betri aðstöðu en áður var í Hafnarhúsinu við hlið núverandi tollhúss, sem þá var nýbyggt.
Árið 1945 hófst farþegaflug til Keflavíkurflugvallar og á næstu árum þróaðist það áfram. Á næstu árum fór alþjóðlegt flug fram á báðum flugvöllum. Árið 1962 fluttist næstum allt millilandaflug á Keflavíkurflugvöll. Fyrst var löggæsla í höndum Sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu, en fulltrúi sýslumanns á flugvellinum stjórnaði löggæslu. Tollgæslan var einnig stofnuð 1946 og var undir fjármálaráðuneytinu en færðist síðar undir utanríkisráðuneytið eftir að Varnarliðið kom til landsins árið 1951. Saga tollgæslu á Reykjavíkurflugvelli hefst rétt fyrir árið 1946, þegar breska setuliðið yfirgefur landið. Fyrir þann tíma var um herflugvöll að ræða og aðkoma Íslendinga að lög- og tollgæslu lítil sem enginn enda flugvöllurinn girtur af með gaddavír og vaktaður.
Breytingar urðu 1957 þegar embætti tollgæslustjóra var stofnað fyrir landið allt en það embætti var lagt niður 1996. Árið 1967 byggja tollhús á 4.846,3m² (fermetra) lóð norðan Tryggvagötu, milli Naustanna og Pósthússtrætis, til þess að reisa á henni tollstöð. Aðeins fjórum árum síðar eða 1971 var tollhúsið við Tryggvagötu tekið í notkun. Húsið var alls 8.100 fermetrar en þar af 2.800 fermetra hafnarskemma. Þar var að finna embætti tollstjóra, skattstofuna og farþegaafgreiðslu fyrir farþega á Gullfoss. Þá var í húsinu miðbæjarlögreglustöðin þar sem nú er að finna tollminjasafnið.
Við tollhúsið var Steinbryggjan sem byggð 1883-1885 sem nú má sjá hægra megin við aðalinngang tollhússins. Frægast við húsið er Mósaíkverk Gerðar Helgadóttur sem sett var upp á árunum 1972 og 1973. Veggplötunar grænu eru íslenskar og úr gabbrói. Síðar þurfti að stækka húsið þegar 3. Hæðin bættist við 1993 en árið 1979 hafði fundaraðstöðu verið bætt við og skrifstofuhúsnæði þar sem farþegaafgreiðsla Gullfoss var. Fyrirhuguð varð hálfgerð hraðbraut á 3. Hæð hússins, sem betur fór kom aldrei til framkvæmdar.
Árið 1987 var embætti ríkistollstjóra stofnað og tollstjórinn í Reykjavík jafnframt settur til að gegna stöðu ríkistollstjóra. Aðeins 14 árum síðar árið 2001 var Ríkistollstjóraembættið var lagt niður m.a. til þess að auðvelda samnýtingu starfskrafta og styrkja tollgæsluna. Verkefni og starfsmenn embættisins færðust yfir til Tollstjórans í Reykjavík.
Það sama var upp á tengingum árið 2007 þegar tollumdæmum var fækkað og umdæmi tollstjórans í Reykjavík stækkað þegar Hafnarfirði, Kópavogi, Akranesi, Borgarnesi og Snæfellsnesi að Búðardal var bætti við umdæmið. Stuttu síðar eða árið 2009 varð landið síðan eitt tollumdæmi undir embætti Tollstjóra. Þann 1. janúar 2009 tóku gildi lög númer 147/2008 um breytingu á tollalögunum númer 88/2005 og fleiri lögum. Eftir breytinguna er Ísland eitt tollumdæmi sem heyrir undir embætti tollstjóra. Það var síðan 1. janúar 2020 að enn ein sameiningin varð þegar embætti Tollstjóra var sameinað Ríkisskattstjóra.
Framtíðin okkar
Þegar við hugsum til framtíðar hugsum við oft til mikilla breytinga sem urðu og þetta sjáum við glöggt á þessari sögulegu yfirferð hér að framan. Ef eitthvað er víst í þessum heimi, er það að hlutirnir breytast og þróast. Viturlegt er fyrir þá sem ekki vilja enda sem nátttröll að geta bæði að breyst sjálfir og þróast með tímanum en einnig að geta skipt um skoðun. Sjálfur hef ég á undanförnum nærri aldarfjórðungi í tollinum yfirleitt reynt að gera það besta úr hlutunum og þurft að aðlagast breytingum og oft þurft að skipta um skoðun. Þetta kemur sennilega til af því að ég er bæði maður sátta og samlyndis en einnig af því að ég sjálfur vill síst af öllu daga uppi sem steinrunninn jötunn eða risi. Ég elska breytingar, þótt ekki vilji ég gera þær breytinganna vegna. Fátt er brjóstumkennanlegra að mínu mati en að enda líf sitt við að berjast gegn vindmyllum, berjist gegn framþróun, þekkingu og sannleikanum. Einnig er sorglegt að gera breytingar sem strax þarf að færa til betri vegar eða fyrra horfs, þótt slíkt sé stundum nauðsynlegt.
Það voru 13 tollverðir sem komu saman þann 1. desember 1935 í þeim tilgangi að stofna stéttarfélag er barist gæti fyrir hagsmunamálum þessarar fámennu stéttar. Sömu tollverðir komu síðan saman og stofnuðu formlega stéttarfélag sitt viku síðar, eða hinn 8. desember 1935. Félagið fékk nafnið Tollvarðafélag Íslands (TFÍ) og skyldi starfssvæði þess vera allt landið. Félagið hefur því verið starfandi óslitið í 87 ár og er í sjálfu sér ungt í anda og sterkt þótt við séum aðeins 110 í félaginu. Ráðnir hafa verið nýir tollverðir frá því í vor og okkur hefur því aftur verið bjargað frá því að deyja út. Tollvarðafélag Íslands er í ágætri sókn að starfsandinn miklu betri en hann hefur verið á liðnum 3-5 árum. Það er ykkur að þakka kæru tollverðir og baráttuhug ykkar og sáttfýsi.
Markmið okkar stéttarfélags eru skýr og þau tiltekin í 2. gr. laga félagsins: Við eigum að að efla samvinnu meðal tollvarða, beita okkur fyrir hagsmunamálum þeirra innan starfs sem utan, meðal annars launakjörum, tryggingum, menntun, vinnutíma, vinnutilhögun, vinnuvernd og öðru því sem stuðlar að almennri velferð tollvarða. Að þessu hafa tollverðir unnið að í þessu stéttarfélagi í 87 ár og að þessu ætlum við að vinna áfram.
Fram undan eru spennandi tímar og ætlar sér félagið stóra hluti í samvinnu við okkar ágæta tollgæslustjóra, ríkisskattstjóra og mannauðssvið og yfirmenn tollgæslustjóra og Skattsins. Þarna á ég ekki síst við að gera þarf myndarlegt átak í endurmenntun tollvarða, sem hefur legið algjörlega niðri í Covid-pestinni. Samræður eru hafnar við embættið um námskeið og kynningar, sem okkur langar að halda í samstarfi við innlenda og erlenda aðila og þá bæði frá Evrópu og vestan hafs. Við viljum í sameiningu efla getu tollgæslunnar á þessum viðsjárverðu tímum þegar alþjóðleg glæpastarfsemi í miklum vexti og öryggi þjóðarinnar er vissulega ógnað. Ég finn fyrir miklum velvilja í okkar garð hjá ríkisskattstjóra og tollgæslustjóra og samvinnan er góð.
Ég mun ganga á fund fjármálaráðherra í byrjun næsta árs og kynna honum hugmyndir stjórnar félagsins. Þar er auðvitað fyrst að nefna 65 ára málið, sem snýst um að tollverðir fái sömu eftirlaunakjör og lögreglu og fangaverðir hafa nú búið við í langan tíma. Þetta er ekki aðeins réttlætis- og sanngirnismál heldur að okkar mati einnig ódýrara og skilvirkara fyrir ríkið. Eða dettur nokkrum í huga að tollverðir á aldrinum 65-70 ára geti á vöktum í raun staðið sína plikt við erfiða leit í skipum, flugvélum eða gámum eða við handtöku og jafnvel í átökum við sérþjálfaða hermenn eins og því miður hefur gerst á liðnum árum.
Allir launamenn standa nú frammi fyrir erfiðum samningum á þessu og næsta ári. Dýrtíðin í landinu eru mikil og verðbólga um 10%, sem gerir það að verkum að kaupmáttur launa lækkar hratt. Að auki hafa vextir hækkað mikið, sem gerir sérstaklega ungum fjölskyldum erfitt fyrir. Það er trú Tollvarðafélagsins að samtökum launamanna í landinu, atvinnurekendum, ríki og sveitarfélögum takist að finna viðunandi lausn. Það er í raun algjörlega víst að slík lausn finnst, því við verðum að finna lausn á þeim vanda sem steðjar að okkur.
Við tollverðir treystum í þessum málum auðvitað á slagkraft annarra því við höfum ekki frekar en aðrir embættismenn verkfallsrétt t.a.m. lögreglan eða fangaverði. Við munum hins vegar ekki láta okkar eftir liggja í samningaviðræðum en alltaf sýna sanngirni og koma vel undirbúnir til leiks, þar sem teflt verður fram rökum og staðreyndum en ekki staðlausum stöfum. Allar kröfur verða að vera raunsæjar, framkvæmanlegar því að öðrum kosti er ljóst að þær eru innistæðulausar og munu brátt fuðra upp á báli óðaverðbólgu. Þetta þekkjum við sem vorum börn og ungt fólk á árunum 1970-1990.
Kæru félagar, líkt og þið sjáið er stjórn TFÍ og formaður félagsins í fullu fjöri.
Ég óska ykkur til hamingju með daginn.
Guðbjörn Guðbjörnsson, form. TFÍ