Það var skrítið í gær að aka Reykjanesbrautina að Keflavíkurflugvelli, leggja bílnum og ganga inn á minn gamla vinnustað í Leifsstöð í kveðjukaffi, þar sem bróðir minn Jens Guðbjörnsson, aðalvarðstjóri tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli hjá Skattinum, var að segja bless við samstarfsmenn sína eftir 41 ára starf sem skipaður embættismaður í tollgæslunni bæði í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli. Jens stóð sína plikt til 70 ára aldurs, geri aðrir betur eftir 55 ár á vinnumarkaði og hann er hvergi hættur.
Fyrstu 17 árin (1981-1998) var Jens lengst af starfandi sem tollfulltrúi í Reykjavík en síðustu 20 árin eða svo hefur hann síðan verið aðalvarðstjóri á alþjóðaflugvellinum (1998-2023). Áður en Jens var skipaður tollvörður, hafði hann verið sjómaður frá 15 ára aldri í 14 ár (1968-1981) og var lengst af stýrimaður og skipstjóri m.a. á Snorra Sturlusyni, Viðey og Jóni Vídalín. Jens var góður skipstjóri og stýrimaður og félagi góður á sjónum eins og ég fékk að kynnast sem háseti hjá honum. Kröfuharður var hann fyrsta túrinn við 15 ára gamlan sjóveikan bróður sinn; ekkert gefið eftir, ekki tomma.
Jens er með duglegustu mönnum sem ég hef kynnst, sem er nú reyndar ekki óvanalegt í okkar ætt, það skal viðurkenna. Í 55 ár hefur hann ekki aðeins mætt til vinnu eins og honum bar, heldur alltaf og allsstaðar skilað góðu og vönduðu dagsverki. Góður tollvörður er nákvæmur, samviskusamur og á stundum harður í horn að taka, en þarf einnig að geta verið mannlegur og sanngjarn, geta sýnt meðalhóf. Yfirleitt hefur Jens unnið tvöfalda vinnu, því hann var alltaf með trillu meðfram starfi og líka sem trillukarfl var hann gríðarlegur dugmikill aflamaður. Líkt og títt er í minni ætt leggur hann líf sitt og sál í starfið. Það eitt skilar viðunandi árangri.
Það eru menn eins og Jens Guðbjörnsson, sem nú fer á eftirlaun en verður áfram með trilluna sína eins lengi og hann getur, sem hafa gert íslenskt samfélag eins ríkt og það er í dag. Sívinnandi, harðduglegt fólk sem aldrei stoppar. Fólk eins og Jens og forfeður okkar bræðra eru þeir sem lagt hafa grundvöllinn að okkar auðæfum og velferðarkerfi. Til að viðhalda og bæta lífskjörin og velferðina þurfum við fleiri afburðamenn á borð við Jens. Það eru hann og hans líkar sem greiða öðrum borgaralaun og standa undir allri velferðinni.
Það virðist oft gleymast að á bak við öll fínu húsin, flottu bílana, ferðalögin til Tene, börn og barnabörn er nær alltaf þrotlaus vinna, agi, skipulag og gríðarlegur kraftur, einbeittur vilji. Jens, takk fyrir samfylgdina á Snorra Sturlusyni, Viðey og Jóni Vídalín, þar sem þú varst skipstjórinn og stýrimaðurinn minn, öruggur og staðfastur. Takk fyrir 25 ár í tollinum þar sem við höfum fylgst að þennan aldarfjórðung, sanngjarn og traustur. Fyrir hönd Tollvarðafélags Íslands og íslensks samfélags þakka ég þér og þínum líkum fyrir alla vinnuna, alla skattana og auðvitað skattheimtuna og löggæsluna á landamærum.
Fyrst og fremst vil ég þó þakka þér fyrir að hafa alltaf verið þú sjálfur. Fyrir að hafa staðið í lappirnar fyrir þig og kollega þína þegar þess þurfti við og berjast til sigurs. Á slíkum réttsýnum baráttumönnum, sem vísa veginn, þarf stéttabaráttan að halda. „Gjör rétt – þol ei órétt.“ Hafðu það gott á þínum ellilífeyri, þú hefur svo sannarlega unnið fyrir honum á öllum þessum erfiðu vöktum og aukavöktum í tvísýnu veðri á sjónum og erfiðri Reykjanesbrautinni eða við móttöku þreyttra og oft úrillra ferðalanga, þolinmóður og réttlátur.
Nú er kominn tíma til að njóta lífsins af öllum lífs og sálarkröftum og þeirrar fyrirhyggju og dugnaðar sem þú hefur alltaf sýnt.
Guðbjörn Guðbjörnsson
formaður Tollvarðafélags Íslands og yfirtollvörður