Framlenging á heimild til frestunar á niðurfellingu orlofs

Tekin hefur verið ákvörðun af Ríkinu, í samráði við heildarsamtök opinberra starfsmanna, um að framlengja heimild til frestunar á niðurfellingu orlofs, sem að hámarki getur verið 60 dagar, um eitt ár eða til 30. apríl 2024. Eftir þann dag fellur eldra orlof niður.

Ákvörðunin í heild hljóðar svo:

Í síðustu kjarasamningum aðila voru gerðar breytingar á orlofskafla samninganna þar sem samið var um að sé orlof ekki tekið á orlofsárinu falli það niður, sbr. gr. 4.6.1, nema undanþáguákvæði í gr. 4.6.2 og gr. 4.6.3 eigi við. Þá var sett inn sólarlagsákvæði í gr. 4.6.5 þar sem starfsmaður sem átti gjaldfallið orlof 1. maí 2019, allt að 60 dögum, gat nýtt þá daga til 30. apríl 2023 en að þeim tíma liðnum myndu þeir falla niður. Á samningstímanum var jafnframt tekin ákvörðun um að framlengja eldri reglu um frestun orlofs til þess að koma í veg fyrir að í gildi væru tvær reglur um niðurfellingu orlofs á sama tíma, en nýr orlofskafli tók ekki gildi fyrr en 1. maí 2020. Meðal þeirra markmiða sem búa að baki breytingu á orlofskafla kjarasamnings og framkvæmdar honum tengdum er að tryggja að starfsfólk fái notið orlofs til að ná hvíld og endurheimt frá starfi í samræmi við rétt þess þar á en safni honum ekki upp.

Þar af leiðir að eldra orlof fellur að óbreyttu niður frá og með 1. maí 2023. Í ljósi utanaðkomandi aðstæðna á samningstíma síðasta kjarasamnings er þó ljóst að hluta starfsfólks muni ekki takast að klára ótekið orlof fyrir 30. apríl 2023, vegna starfa sinna. Er því framangreind heimild til frestunar á niðurfellingu orlofsdaga framlengd til 30. apríl 2024.