Tollverðir lögðu hald á byrlunarvökva

Tollverðir við Sundahöfn í Reykjavík stöðvuðu hraðsendingu fyrir um mánuði sem innihélt einn lítra af byrlunarvökva.

„Þetta var skráð í farmskrá hreinsivökvi, þetta heitir GBL á fagmálinu og ef þessi GBL vökvi er blandaður með vatni þá er þetta byrlunarvökvi sem er notaður með mjög slæmum tilgangi. Þetta var talsvert magn? Já, þetta var einn lítri, og verður að mörgum lítrum þegar það er búið að blanda þetta með vatni. Hafið þið oft fundið svona? Undanfarin ár kemur þetta reglulega fyrir að þessi vökvi er stöðvaður hjá okkur já,“ segir Ársæll Ársælsson yfirtollvörður.

Tilkynningum til lögreglu um byrlanir fjölgaði mjög í haust. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hóf samstarf við bráðamóttöku Landspítala til að bæta viðbrögð við málum sem gætu tengst byrlunum. Í október komu þrjú byrlunarmál inn á borð lögreglunnar á Akureyri vegna gruns um að þremur einstaklingum hefði verið byrlað lyf eða fíkniefni á skemmtistöðum eða heimahúsum í bænum. Blóðsýni voru tekin fljótlega eftir að grunur vaknaði um brot en við rannsókn kom í ljós að einstaklingarnir höfðu töluvert áfengismagn í blóðinu en engin merki um deifilyf eða fíkniefni.

RUV 20.02.2022 – 08:37 Dóms- og lögreglumál · Innlent