Texti hér að neðan er tekinn úr kennsluriti sem útbúið var fyrir Tollskóla Ríkisins af Guðbirni Guðbjörnssyni, yfirtollverði og fyrrverandi formanni Tollvarðafélagsins.
Það má í sjálfu sér segja að sýslumenn hafi gegnt hlutverki tollgæslu áður en hinir svokölluðu vaktarar tóku til starfa. Þannig sinntu sýslumenn tollgæslu allt frá byrjun einokunarverslunarinnar 1602 og til loka henna 1787. Íslendingar máttu ekki versla við útlendinga án leyfis konungs. Hvenær vaktarar hófu störf er annars óvíst, en þeim var sett erindisbréf árið 1778. Þeir sinntu almennri löggæslu og voru því í senn lögreglumenn og tollverðir. Á þessum tíma var mestur hluti aðflutningsgjalda innheimtur í Danmörku.
Upphaf tollheimtu á Íslandi má hinsvegar rekja til ársins 1872 þegar í gildi gekk konungleg tilskipun um innheimtu tolls af áfengum drykkjum öðrum en áfengu öli. Þá annaðist bæjarfógetaembættið í Reykjavík tollheimtuna. Árið 1911 voru svo sett heildartollalög þar sem lagður var tollur á áfengi, öl, gosdrykki, tóbak, kaffi, te, sykur, sýróp, súkkulaði, kakó, brjóstsykur og konfekt.
Um 1910 er ákveðið að setja á stofn tollgæslu í Reykjavík, sem tilheyra skyldi lögreglustjóranum í Reykjavík. Eitthvað gekk framkvæmdin seint, en um 1918 sjáum við að 2 menn eru sagðir vera næturverðir við Reykjavíkurhöfn, einskonar tollverðir síns tíma. Um 1918 sáu einn til fjórir lögregluþjónar um tollgæsluþáttinn hjá lögreglustjóra. Árið 1921 eru tveir fastir tollverðir ráðnir til starfa.
Árið 1917 voru samþykkt lög frá Alþingi sem sögðu að stofna skyldi sérstaka tollgæslu fyrir Reykjavík og í apríl 1921 var sem fyrr segir fyrsti tollvörðurinn ráðinn til starfa. Embætti tollstjórans í Reykjavík var svo sett á stofn með lögum nr. 67/1928 sem tóku gildi 1. janúar 1929 og var Jón Hermannsson fyrsti tollstjórinn í Reykjavík. Síðan hafa gegnt starfinu Torfi Hjartarson, Björn Hermannsson og nú Snorri Olsen. Árið 1929 urðu skipti í sögu íslenskrar tollgæslusögu. Þá var embætti lögreglustjóra skipt upp í lögreglustjóraembætti og embætti tollstjórans í Reykjavík. Jón Hermannsson var tollstjóri fram til 1943, en þá tók Torfi Hjartarson við embættinu og sat fram til 1972 er Björn Hermannsson tók við því. Er ríkistollstjóraembættið var stofnað, gegndi Björn því embætti samhliða embætti tollstjóra í Reykjavík. Í upphafi var aðstaða tollgæslunnar nær engin en um mitt ár 1920 var fyrsta tollvarðstofan tekin í notkun í hafnarpakkhúsinu. 1934 var svo flutt í nýbyggt Hafnarhús og tollgæslan fékk skrifstofu, varðstofu og geymslur. Árið 1960 voru starfsmenn tollstjórans í Reykjavík orðnir 50 talsins og ljóst að bæta þyrfti aðstöðu embættisins til muna. Þá var ráðist í að byggja Tollhúsið við Tryggvagötu og var það tekið í notkun 1971. Í dag starfa um 110 tollverðir hjá tollstjórum um land allt, þar af rétt um 50 í Reykjavík og um 50 á Suðurnesjum, 2 í Vestmanneyjum, 2 á Akureyri, 3 á Eskifirði, 1 á Ísafirði og 1 á Selfossi og 2 á Seyðisfirði.[1]
[1] Þýtt af vef þýska tollminjasafnsins, efni frá Norska tollminjasafninu – Jóni Ágústi Eggertssyni, af vef lögreglunnar og vef Tollstjórans í Reykjavík.