Reglur um lögmannsaðstoð hjá TFÍ

1. Óski félagsmaður eftir lögmannsaðstoð á kostnað TFÍ ber hann fram ósk um það með skriflegum hætti til stjórnar TFÍ.

2. Stjórn TFÍ tekur ákvörðun um hvort lögfræðileg aðstoð sé veitt, hve mikla aðstoð skuli veita og hvert skuli sækja hana.

3. Sé um mjög brýnt mál að ræða sem að þarfnast tafarlausrar aðstoðar er heimilt að leita beint til formanns TFÍ sem getur veitt bráðabirgða heimild varðandi aðstoð, en viðkomandi aðili skal síðan leggja fram skriflega beiðni í samræmi við gr. 1.

4. Félagsmaður TFÍ getur átt rétt á lögmannsaðstoð á kostnað TFÍ að mati stjórnar m.a. í eftirfarandi tilfellum:
a. Þegar ætla má að um sé að ræða brot á ákvæðum kjarasamnings gagnvart honum.
b. Aðstoð vegna andmælaréttar vegna fyrirhugaðrar áminningar eða lausnar um stundarsakir ef um er að ræða ætlað brot í starfi eða ef talið er að ákvæði laga eða reglna séu brotnar á honum í málsmeðferðinni.
c. Við að fá hnekkt fyrir dómi áminningu eða brottvikningu.
d. Við réttargæslu vegna kæru vegna brota í starfi sem leiðir til ákæru og dómsniðurstöðu sem hefur kostnað í för með sér fyrir viðkomandi.
e. Við málatilbúnað á bótakröfu og framhald máls fyrir dómstólum ef nauðsynlegt telst að mati lögmanns á vegum TFÍ og hefur kostnað í för með sér fyrir viðkomandi.
f. Vegna kostnaðar við varnir í einkamáli sem höfðað er gegn honum til greiðslu skaðabóta vegna meintra mistaka í starfi. Þar sem viðkomandi er sýknaður en eftir standi lögfræðikostnaður vegna málsins.
g. Þá getur starfsmaður átt rétt á lögmannsaðstoð ef að mál hans varðar ýmis lög t.d. starfsmannalög, stjórnsýslulög, upplýsingalög ofl. sem að tengjast rétti hans til að ná fram réttindum sínum er varðar starf hans eða vegna annarra þeirra atriða sem stjórn TFÍ telur eðlilegt að veita lögmannsaðstoð vegna.

5. TFÍ ber einungis kostnað vegna lögmannsaðstoðar frá þeim tíma sem beiðnin um lögmannsaðstoð er afgreidd, nema annað, sé ákveðið við afgreiðslu málsins. TFÍ ber ekki ábyrgð á áður tilkomnum kostnaði hjá sjálfstætt starfandi lögmönnum eða sérfræðingum, nema annað sé ákveðið, annars er það á ábyrgð viðkomandi einstaklings.

6. Stjórn er heimilt að synja um aðstoð á kostnað TFÍ ef:
a. Viðkomandi er kærður – ákærður – dæmdur fyrir vítaverða vanrækslu, stórfellt gáleysi, ásetning eða stórfellt brot í starfi.
b. Þá er heimilt að synja um lögfræðilega aðstoð ef lögmaður á vegum TFÍ metur það svo að lögfræðileg aðstoð hafi enga þýðingu. Stjórn metur það ávallt í samráði við lögmann á vegum TFÍ hve mikla lögfræðilega aðstoð tollverði skuli veitt.

7. Ekki skal veita aðstoð vegna lögfræðikostnaðar vegna máls sem koma upp í einkalífi manna nema málið varði lið 4a og b.

8. Heimilt er stjórn að skilyrða ábyrgð á greiðslu lögfræðikostnaðar við niðurstöðu máls í samræmi við gr. 6.

9. Ákvarðanir á grundvelli reglna þessara eru byggðar á mati stjórnar TFÍ hverju sinni en stjórn TFÍ er heimilt að víkja frá ákvæðum þeirra ef ríkar ástæður eru fyrir hendi að mati aukins meirihluta stjórnar.

10. Breytingar sem að gerðar eru á reglum þessum eru háðar samþykki stjórnar TFÍ. Reglur þessar öðlast þegar gildi.

Samþykkt á stjórnarfundi TFÍ þann 14 janúar 2014