Þann 1. desember 1935 komu 13 tollverðir saman í þeim tilgangi að stofna stéttarfélag er barist gæti fyrir hagsmunamálum þessarar fámennu stéttar. Tollverðirnir komu síðan saman og stofnuðu formlega stéttarfélag sitt viku síðar, eða hinn 8. desember 1935. Félagið fékk nafnið Tollvarðafélag Íslands (TFÍ) og skyldi starfssvæði þess vera allt landið. Fyrsti formaður var Felix Jónsson en með honum í stjórn voru Grímur Bjarnason ritari og Haraldur S. Norðdahl féhirðir. Aðrir stofnendur voru Aðalsteinn Halldórsson, Ásgrímur Guðjónsson, Björn Friðriksson, Jón Guðmundsson, Jónas Guðmundsson, Jörgen Þorbergsson, Magnús Jónsson, Sigurður Sigurbjörnsson, Sigmundur Gíslason og Þórður Sigurbjörnsson.
Baráttumál TFÍ hafa í gegnum tíðina legið með baráttumálum BSRB en TFÍ var eitt af stofnfélögum þess. Segja má að barátta TFÍ í gegnum árin hafi fært tollverði langt fram á veginn en sífellt verður að vera vakandi fyrir þáttum í starfs og kjaraumhverfi tollvarða. Verkefni stjórnarmanna félagsins í gegnum sögu félagsins hafa verið ærin og svo mun það vera í framtíðinni.