Reglur Líknarsjóðs TFÍ

1. gr.
Sjóðurinn heitir Líknarsjóður Tollvarðafélags Íslands. Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík, en starfssvæði hans er allt landið.

2. gr.
Verkefni sjóðsins er að veita maka eða eftirlifandi börnum fjárhagsaðstoð við andlát sjóðsfélaga. Sjóðsfélagar eru félagsmenn TFÍ sem greitt hafa framlag til sjóðsins.

3. gr.
Tekjur sjóðsins eru:
a) Vaxtatekjur og annar arður.
b) Gjafir, framlög og styrkir.
c) Aðrar tekjur.

4. gr.
Stjórn sjóðsins skal kosin á aðalfundi TFÍ. Skal hún skipuð þremur mönnum til tveggja ára í senn og tveim til vara. Gjaldkeri TFÍ hverju sinni skal vera formaður sjóðsins. Stjórnin ber ábyrgð á öllum fjárreiðum sjóðsins.

5. gr.
Reikningar sjóðsins áritaðir af stjórn hans og kjörnum skoðunarmönnum TFÍ skulu lagðir fyrir aðalfund TFÍ til samþykktar.

6. gr.
Geti sjóðurinn ekki staðið við skuldbindingar ber stjórn að leggja fyrir aðalfund tillögur að breytingu á reglugerð sem tryggir að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.

7. gr.
Ávöxtun á fé sjóðsins skal fara fram með eftirfarandi hætti:
a) Í ríkisskuldabréfum eða skuldabréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs.
b) Með kaupum á markaðsskráðum verðbréfum.
c) Í bönkum, sparisjóðum eða sambærilegum peningastofnunum.
d) Á annan þann hátt er stjórn sjóðsins metur tryggan.

8. gr.
Iðgjöld sjóðsins endurgreiðast ekki.

9. gr.
Rétt til styrks úr sjóðnum eiga þeir félagar sem fullnægja eftirfarandi skilyrðum:
a) Þeir sem eru fullgildir félagsmenn og greitt hafa tilskilin gjöld til sjóðsins undangengna 6 mánuði áður en styrkveiting fer fram.
b) Eftirlaunaþegar sem notið hafa fullra réttinda í sjóðnum við starfslok.
c) Stjórn sjóðsins getur ákveðið hlutfallslegar greiðslur úr sjóðnum til þeirra sem uppfylla að hluta ákvæði þessarar greinar.
Stjórn Líknarsjóðs er heimilt að veita félagssjóði TFÍ lán. Skilyrt er samþykki stjórnar Líknarsjóðs og stjórnar TFÍ. Lánið endurgreiðist með sömu ávöxtunarkjörum og sjóðurinn nýtur.

10. gr.
Við andlát sjóðfélaga skal greiða kr: 250.000.- vegna útfararkostnaðar. Stjórn Líknarsjóðs getur veitt félagsmönnum fjárstyrk í sérstökum tilfellum samkkvæmt mati stjórnar sjóðsins.

11. gr.
Réttur til styrks úr sjóðnum fyrnist sé hans ekki vitjað innan 12 mánaða frá því bótaréttur skapaðist

12. gr.
Geisi skæðar farsóttir, getur stjórn sjóðsins ákveðið að bótagreiðslur falli niður meðan sótt geisar.
Sama gildir ef sjóðurinn verður fyrir óvæntum áföllum af öðrum ástæðum.

13. gr.
Breytingar á reglugerðinni verða aðeins gerðar á aðalfundi TFÍ og þurfa þær að vera samþykktar með 2/3 hluta greiddra atkvæða fundarins. Slíkra tillagna skal getið í fundarboði.

Samþykkt á aðalfundi TFÍ