Texti hér að neðan er tekinn úr kennsluriti sem útbúið var fyrir Tollskóla Ríkisins af Guðbirni Guðbjörnssyni, yfirtollverði og fyrrverandi formanni Tollvarðafélagsins.
Einkennisföt eiga uppruna sinn í hernaði. Þeim var ætlað að greina vini frá óvinum. Tignarmerki eru hvoru tveggja til þess að liðsmenn sama liðs og annarra liða átti sig á stöðu viðkomandi. Þetta er nauðsynlegt, við erfiðar aðstæður, þar sem þarf að taka skjótar ákvarðanir og því brýnt að vita hver fer með boðvaldið hverju sinni. Eins á borgarinn betra með að átta sig á því hver er yfirmaður á vettvangi.
Stjórnvöld lögðu snemma áherslu á að búningarnir væru vel úr vegi gerðir og áttu þeir þá að vekja athygli og aðdáun fólks og stundum jafnvel ótta. Búningar voru jafnframt tákn um mikilleik ríkisins, völd þess og mátt. Búningar eiga sér einnig myrka hlið og hafa því miður einnig verið notaðir í neikvæðum tilgangi. Þannig voru nasistar mjög vel meðvitaðir um mikilvægi búninga og áróðursgildi þeirra og notuðu þá óspart til að tæla unga menn í herinn. Svo mikla áherslu lögðu þeir á hönnun búninga, að Hugo Boss hannaði búninga SS manna í stormsveitunum svokölluðu. Hönnun búninganna litaval og hauskúpumerkið átti að vekja óttablandna virðingu fyrir hermönnunum og væri synd að segja að þar hafi ekki tekist “vel” til m.t.t. þeirra markmiða sem þeir settu.
Einkennisfatnaður tollvarða á Norðurlöndum varð ekki almennur fyrr en 1850. Danir höfðu að vísu tekið upp einkennisfatnað fyrr, en Óskar I konungur Svía og Norðmanna neitaði að innleiða einkennisfatnað fyrr en 1847. Tollverðir greiddu að fullu fyrir einkennisföt sín sjálfir. Tollverðir voru heldur ekki skyldugir til að bera einkennisfatnað, en þeir urðu að bera einkennishúfu. Seinna var þessu breytt og tollverðir fengu allir einkennisfatnað, en greiddu sjálfir hluta af honum og er svo enn í dag, en tollverðir á norðurlöndunum greiða hinsvegar ekki skatta af honum líkt og tíðkast á Íslandi.
Fyrir tíma einkennisfatnaðarins báru menn á sér tollskilti, (skjöld) eða “Tolltegn”, sem mönnum líkaði illa. Báru þeir því við að meðan þeir leituðu í vösum sínum eftir skyldinum, hyrfu smyglarar og annar afbrotalýður á braut. Fyrst voru það eingöngu yfirmenn sem fengu einkennisföt, en aðrir fylgdu á eftir. Einkennisföt norskra tollvarða hafa verið svo til óbreytt frá 1905, með örfáum undantekningum.
Eftir stofnun tollstjóraembættisins fengu íslenskir tollverðir dönsk einkennisföt, þar sem landið var enn undir danskri krúnu. Eftir lýðveldistökuna 1944, breyttist fátt annað en hnapparnir á fötunum. Úr reglum fyrir tollgæsluna í Reykjavík frá 1938 kemur þessi klásúla:
“Einkennisbúning verður hver tollgæslumaður að bera, þegar hann er að tollgæslustarfi, nema annað sje lagt fyrir hann af yfirmanni hans. Hann m.a. ekki bera einkennisbúning, þegar hann er ekki á verði. Þó er heimilt þangað til öðruvísi verður ákveðið, að vera í honum beint að heiman á vörð og beint heim af verði. Þegar tollgæslumaður er á verði í skipi, við skip eða á hafnarbakka, má hann ekki reykja, ganga við staf, ekki tala við neinn, nema verk hans útheimti það, og ef einhver spyr hann á hann að svara stutt, kurteislega og greinilega, og síðan halda eftirliti sínu áfram. Yfirleitt er allur óþarfa vaðall, þegar tollgæslumaður er að starfi, bannaður. Tollgæslumenn skulu bera sig vel og ganga frjálsmannlega.”