Kæru félagar um land allt,
Ég fylltist stolti þegar ég skoðaði myndir af starfsfélögum okkar í morgun, sem vinna við það óeigingjarna starf að fylgjast með inn- og útflutningi sem og farþegum sem koma til landsins og koma í veg fyrir að ólöglegur varningur berist hingað, hvort sem það eru ópíóðalyf, vopn, stórhættuleg barnaleikföng eða óheilnæm matvæli, svo aðeins nokkur af þeim mikilvægu verkefnum séu nefnd, sem tollgæslan sér um ásamt bræðrastétt okkar lögreglunni, Landhelgisgæslunni, slökkviliðs- og sjúkraflutningamönnum, að ógleymdum fangavörðum. Samkennd og samvinna opinberra starfsmanna nær þó víðar og er djúp og mikil og gott fyrir núverandi og verðandi ráðherra og þingmenn að hafa það í huga og tala gætilega, því aðgát skal höfð…
Að auki innheimtum við aðflutningsgjöld fyrir ríkissjóð, þannig að hægt sé að standa undir samneyslunni, hvort við erum að tala um menntakerfið, heilbrigðiskerfið, öflugt velferðarkerfið, menningarlífið, samgöngumannvirki eða aðra löggæslu. Ég er stoltur af því að sinna mínu starfi fyrir íslensku þjóðina með þessari vösku sveit og ég tel að þjóðin standi á bak við okkur að gæta landamæranna og tryggja að allir greiði keisaranum það sem keisarans er. Við skulum passa upp á opinberar stéttir, þær eru mikilvægar og vinna sín störf alla daga oft án þess að eftir því sé tekið eða þeir fái mikið hrós fyrir það, þrátt fyrir að eiga það svo sannarlega skilið.
Kæru félagar innan BSRB, BHM, KÍ og innan ASÍ og allra annarra heildarsamtaka launþega; takk fyrir ykkar óeigingjörnu vinnu 365 daga á ári, 24 tíma á sólarhring. Stéttabaráttan heldur áfram, til hamingju með daginn!
Guðbjörn Guðbjörnsson,
formaður Tollvarðafélags Íslands