Dagana 2. – 4. október sl. héldu Norrænu tollvarðafélögin (NTO/ Nordisk Tolltjenestemenns Organisasjon) sinn árlega fund í Reykjavík.
Á fundinum var farið yfir þau mál sem mestu máli skipta t.a.m. fjölda tollvarða, öryggismál, menntun þeirra, laun og annan aðbúnað hjá tollstjóraembættum Norðurlandanna. Vegna þess skelfilega ástands sem ríkir í Svíþjóð fór umtalsverður tími í að ræða öryggi tollvarða og lögreglu þar í landi og það skelfilega öryggisástand sem ríkir um allt landið núna. Að sögn formanns Sænska tollvarðafélagsins er ástæðan fyrir því ófremdarástandi sem skapast hefur sú, að landamæri landsins hafa verið hriplek í a.m.k. tvo áratugi. Fíkniefni og vopn flæða inn í landið. Þá sagði hann að ekki væri hægt að horfa fram hjá því að mikið af glæpamönnum hafi flutt til landsins á þessum tíma og fengið „frjálst spil“ til að skipuleggja sína glæpastarfsemi.
Nú er svo komið að enginn ræður neitt við neitt. Sprengingar og skotárásir eru daglegt brauð. Af því að þeir sem stunda þessi glæpaverk kunna í raun hvorki að útbúa sprengjur eða myrða það á annan hátt láti aðrir lífið en áttu í raun að deyja. Þó sé það svo núna að glæpamennirnir vilji skapa glundroðaástand til að eiga hægara með að athafna sig. Eftir ræðu formanns Sænska tollvarðafélagsins má segja að líflegar umræður hafi skapast. Samstaða varð um það að semja sameiginlega ályktun til að vara við því ástandi sem skapast hefur. Einnig var í ályktuninni hvatt til þess að leggja meiri fjármuni í að verja landamærin og þá sérstaklega með því að styrkja tollgæsluna og koma þannig í veg fyrir innflutningi á fíkniefnum og vopnum.
Öfugt við það sem er að gerast í Svíþjóð og Danmörku, er tollvörðum að fækka mjög hratt í Noregi vegna lágra launa og annarra áherslan en að styrkja tollgæslu á landamærum og má segja það sama um Finnland. Hér á landi er ástandið þannig að óhætt er að hafa áhyggjur af því, en tollvörðum hefur fækkað um 5% á einu ári og fækkar líklega meira á þessu. Á sama tíma er ópíóðafaraldur í gangi og ofbeldi eykst og skipulögð glæpastarfsemi einnig.
Tollvarðafélag Íslands tók þátt í að semja þá yfirlýsingu sem fylgir þessari grein og hvetur Alþingi til að skera ekki niður í tollgæslunni á næstu tveimur árum, heldur frekar að styrkja landamæravarnir. Þjóðfélagslegur ávinningur af sterkum landamæravörnum er margfaldur á við það sem útgjöld til málaflokksins eru.
Guðbjörn Guðbjörnsson,
formaður TFÍ