Afmæli TFÍ 8. desember – Pistill formanns

Ágætu tollverðir og aðrir starfsmenn Skattsins

Þann 1. desember sl. voru liðin 86 ár frá því að 13 tollverðir hittust árið 1935 og ákváðu að stofna Tollvarðafélag Íslands (TFÍ) í þeim tilgangi að stofna stéttarfélag er barist gæti fyrir hagsmunamálum þessarar fámennu stéttar. Formlega var félagið stofnað viku síðar eða þ. 8. desember 1935. Toll- og skattheimtumenn tilheyra elstu stétt opinberra starfsmanna í heiminum og sem dæmi um það hófu fyrstu kollegar okkar störf löngu áður en okkar tímtal hófst eða fyrir nokkur þúsund árum í Egyptalandi og Miðausturlöndum. Að mati formanns TFÍ eru stéttir toll- og skattheimtumanna hornsteinn ríkisvaldsins og siðmenningar, því án skatttekna og landamæragæslu er hætt á að lítið færi fyrir þróuðum samfélögum nútímans. Undirritaður ber enga ábyrgð á réttmæti neðangreinds texta, sem stolið var úr fyrri skrifum formanns af netinu, en ég veit af góðum sagnfræðingi innan embættisins, sem getur komið leiðréttingu á framfæri ef þurfa þykir.

Þótt stærstur hluti tolla hafi verið innheimtur í Danmörku hófst saga tollgæslu og tollheimtu á Íslandi með tilkomu sýslumanna, sem sinntu tollgæslu allt frá byrjun einokunarverslunarinnar 1602 og til loka hennar árið 1787, en á þeim tíma máttu Íslendingar ekki versla við útlendinga án leyfis konungs. Svokallaðir vaktarar fóru með störf lögreglu og tollgæslu samkvæmt erindisbréfi frá árinu 1778. Upphaf eiginlegrar tollheimtu hér á landi má rekja til ársins 1872, þegar í gildi gekk konungleg tilskipun um innheimtu tolls af áfengum drykkjum öðrum en áfengu öli. Í fyrstu annaðist bæjarfógetinn í Reykjavík tollheimtuna. Árið 1911 voru svo sett heildartollalög þar sem lagður var tollur á áfengi, öl, gosdrykki, tóbak, kaffi, te, sykur, sýróp, súkkulaði, kakó, brjóstsykur og konfekt. Um 1910 er ákveðið að setja á stofn tollgæslu í Reykjavík, sem tilheyrði Lögreglustjóranum í Reykjavík. Árið 1918 sinntu 2 menn tollgæslustörfum við Reykjavíkurhöfn en um 1918 sáu fjórir lögregluþjónar um tollgæsluþáttinn hjá lögreglustjóra. Árið 1917 voru fyrstu lög um tollgæslu samþykkt frá Alþingi en það var í raun ekki fyrr en árið 1921 sem tveir fastir tollverðir voru ráðnir til starfa. Embætti tollstjórans í Reykjavík var stofnsett 1929 og var Jón Hermannsson fyrsti tollstjórinn í Reykjavík. Síðan hafa gegnt starfinu Torfi Hjartarson, Björn Hermannsson, Snorri Olsen og nú er Sigurður Skúli Bergsson skipaður tollgæslustjóri en ríkisskattstjóri er Snorri Olsen. Líkt og sjá má hefur frá örófi alda verið mikið um skipulagsbreytinar hjá tollgæslunni og segja má að hvað það varðar séum við öllu vön. Árið 2007 fækkaði tollumdæmum úr 26 í 8 og árið 2009 var landið gert að einu tollumdæmi. Nú síðast árið 2020 voru embætti Tollstjóra og Ríkisskattstjóra sameinuð í embætti Skattsins, þar sem tollgæslustjóri er sérstök eining innan Skattsins. Vonum við tollverðir að nóg sé komið af stórum breytingum í bili og að þörf sé á að þétta raðirnar og tryggja stöðugleika.

Saga tollgæslu á Reykjavíkuflugvelli hefst rétt fyrir árið 1946, þegar breska setuliðið yfirgefur landið. Fyrir þann tíma var um herflugvöll að ræða og aðkoma Íslendinga að lög- og tollgæslu lítil sem enginn enda flugvöllurinn girtur af með gaddavír og vaktaður. Fyrsta borgaralega flugið kom frá Svíþjóð 1945 til Keflavíkurflugvallar. Flugfélag Íslands (nú Icelandair) hóf einnig flug árið 1945 en þá á Reykjavíkurflugvöll. Á næstu árum fóru einni SAS, Air France og breska flugfélagið BOAC að fljúga til landsins. Á sjötta áratug síðasta aldar var farþegaflug hér og um allan heim í miklum vexti og fór það fram á báðum flugvöllum. Árið 1967 eignuðust Íslendingar fyrstu þotuna (Boeing 727) og var Flugfélagi Íslands gert skylt að reka hana frá Keflavíkurflugvelli. Loftleiðir hættu öllu innanlandsflugi upp úr 1950 og einbeittu sér að millilandaflugi frá Reykjavíkurflugvelli með mjög góðum árangri en fluttu alla starfsemi sína á Keflavíkurflugvöll árið 1962. Keflavíkurflugvöllur (áður kallaður Meaks-flugvöllur) var afhentur Íslendingum árið 1946. Löggæsla var í höndum Sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu, en fulltrúi sýslumanns á flugvellinum stjórnaði löggæslu. Tollgæslan var stofnuð sama ár en var undir fjármálaráðuneytinu. Síðar færðist lögregla og tollgæsla undir utanríkisráðuneytið. Með sameiningu tollgæslu á Keflavíkurflugvelli og í Reykjavík árið 2009 færðist öll tollgæsla í landinu undir embætti Tollstjóra og þar með undir fjármálaráðuneytið. Starfsemi á Keflavíkurflugvelli var í byrjun samofin starfsemi bandaríska varnarliðsins en síðar uppbyggingu ört vaxandi farþegaflugs. Miklar breytingar urðu á starfsemi flugvallarins þegar varnarliðið hvarf á brott árið 2006. Ekki má gleyma tollgæslunni á Eskifirði og Seyðisfirði á Austurlandi, sem sinna m.a. millilandaferjunni og alþjóðaflugvellinum á Egilsstöðum. Þá eru mikilvægar starfsstöðvar á Akureyri, Ísafirði og í Vestmannaeyjum, sem sinna af kostgæfni skipaafgreiðslum og flugi.

Segja má að barátta TFÍ í gegnum árin hafi fært tollverði langt fram á veginn en sífellt verður að vera vakandi fyrir þáttum í starfs- og kjaraumhverfi tollvarða. Verkefni stjórnarmanna félagsins í gegnum sögu félagsins hafa verið ærin og svo mun það vera í framtíðinni. Mikilvægast í allri kjarabaráttu er samstaða félaganna og baráttuvilji, en einnig þarf að leggja áherslu á samvinnu og samtal innan félagsins sem og við vinnuveitenda okkar og fjármálaráðuneytið. Það er skoðun núverandi stjórnar TFÍ að mikilvægt sé rækta þessi sambönd og hlúa að þeim. Enn og aftur hamingjuóskir og við tollverðir bjóðum tollstarfsmönnum upp á smávægilegar veitingar í tilefni af afmælinu á starfsstöðvum, en Suðurnesjamenn þjófstörtuðu hátíðahöldunum fyrir viku síðan þ. 1. desember, sem er þó einnig hátíðardagur í augum okkar tollvarða eins og sjá má í inngangi þessa netpósts.

Með góðri kveðju,

Guðbjörn Guðbjörnsson
formaður