Dagur þýsku Tollgæslunnar (Tag des Zolls)

Þann 4. september sl. var Tag des Zolls (Dagur þýsku Tollgæslunnar) haldinn í Dresden Þýskalandi. Þetta var í fjórða skiptið sem þýska Tollgæslan heldur viðlíka viðburð, en hann er haldinn annað hvert ár. Dagurinn hefur áður verið haldinn í Köln, Hamborg og Konstanz. Áætlað er að um 15.000 manns hafi komið á viðburðinn í ár, þar á meðal fulltrúi Tollvarðafélags Íslands.
Tag des Zolls er í senn hugsaður til að uppfræða almenning um hvað þýski tollurinn gerir, sem og til að vekja athygli almennings á tollinum á starfsvettvangi. Dagurinn var byggður upp í kringum sýningabása um ýmsar hliðar tollgæslu og síðan var skipulögð dagskrá allan daginn frá tíu um morguninn til sex um kvöldið. Að auki var leiksvæði fyrir yngri gesti á svæðinu. Þar var hægt að fá andlitsmálningu, keyra dótatollbíla, púsla stórt tollpúsl og margt fleira.
Gáfu sýningarbásarnir innsýn inn í flestar sýnilegar hliðar tollgæslu í Þýskalandi. Meðal annars voru sýningarbásar um:

  • eftirlit með höfundaréttarvörðu efni (IPR)
  • fíkniefni
  • Bátadeild
  • Hundaþjálfunarskólann
  • CITES
  • Alþjóðlega samvinnu
  • Sérsveitir tollsins
  • þjálfun tollvarða
  • peningaþvættisskrifstofu
  • áfengisgjöld og tolla

Skiljanlega vöktu sjónrænir básar mesta athygli almennings, haldlögð vopn, smygl á fíkniefnum og þess háttar. Jafnframt voru til sýnis nokkrar bifreiðar tollgæslunnar, gáma- og farangursröntgenbílar, stjórnstöðvarbíll og bíll búinn öflugri hitamyndavél.

Skipulagða dagskráin innihélt til dæmis tónlistaratriði frá Tollbandinu (hljómsveit tollvarða í Berlín), sjálfsvarnaratriði og góðgerðaruppboð. Mesta athygli almennings vöktu þó tollgæsluhundarnir að störfum og sviðsett inngrip sérsveita Tollgæslunnar þar sem átti sér stað skotbardagi og handtökur.