Orðsending vegna breytinga á lífeyriskerfi ríkisstarfsmanna.

Eins og þið hafið væntanlega orðið vör við þá samþykktu nýlega  BSRB, BHM og KÍ samkomulag um breytt lífeyrissjóðskerfi ríkisstarfsmanna.

Samkomulagið hafði áður verið samþykkt á formannaráðsfundi BSRB og síðar undirritaði formaður BSRB samkomulagið ásamt ofangreindum heildarsamtökum. Ekki var einhugur innan formannaráðs BSRB um samkomulagið og lögðu LL (Landssamband lögreglumanna), SLFÍ (Sjúkraliðafélag Íslands), LSS (Landssamband slökkviliðs-og sjúkraflutningamanna) og TFÍ (Tollvarðafélag Íslands) fram bókanir þar sem undirritun samkomulagsins var mótmælt.

Að mati ofangreindra félaga er ekki nægjanlega tryggt í samkomulaginu að launamunur milli opinbera- og einkageirans sé brúaður en það á að gerast á 6 – 10 árum. Einnig er því mótmælt að lífeyristöku stétta sem hafa sérstöðu hvað varðar lífeyristöku sé breytt úr 65 árum í 67. Með sérstöðu hvað varðar lífeyristöku er átt við stórt hlutfall vaktavinnufólks.

Félögin hafa tekið saman höndum og sent ályktanir til fjölmiðla og þingmanna (sjá meðf. skjöl).

Lög um breytingu á lífeyrismálum eru til umræðu á alþingi þegar þessi orð eru rituð. Á morgun kl. 15 hafa félögin boðað þingmenn til fundar í húsnæði Sjúkraliðafélagsins til þess að ræða þessi mál.

Það ber að nefna að TFÍ setur sig ekki upp á móti því að í landinu verði komið upp sama lífeyriskerfi fyrir allt launafólk en ofangreind atriði þurfa að liggja fyrir áður en það er gert þ.e. launamunur og lífeyristökualdur.

Formaður BSRB Elín Björg Jónsdóttir er ekki sammála málflutningi okkar og telur að ekki hafi verið mögulegt að ná lengra með þessu samkomulagi. (sjá meðf. bréf formanns BSRB)

Bestu kveðjur

Ársæll Ársælsson formaður TFÍ

alyktun-a-thingmenn

alyktun-lss-og-tfi-til-fjolmidla-um-lifeyrismal

bref-formanns-bsrb-um-samkomulag-um-lifeyrismalin