https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/06/27/byst_vid_thvi_ad_thetta_endi_i_gerdardomi/
Ágætu tollverðir
Það er frekar óvenjulegt að stjórn og samninganefnd standi í því á sama tíma og það í kringum 1. maí að standa í samningum bæði í aðalkjara- og stofnanasamningum. Reyndar er það svo að samningar allra opinberra starfsmanna eru nú lausir og því miður virðist lausn ekki í sjónmáli, þar sem ákveðnar kröfur eru uppi t.a.m. varðandi jöfnun launa á milli launamarkaða, þ.e. hins opinbera og almenns vinnumarkaðar. Þarna er sérstaklega talað um að ‚einkeypisstéttir‘ eigi eitthvað inni og við teljumst víst til þeirra. Staða okkar er hins vegar í mörgu tilliti erfiðari, þar sem við sem fagstétt höfum aðeins einn vinnuveitanda eða tollgæsluna, Skattinn. Áður fyrr gátu tollverðir þó flakkað á milli embætta. Að auki er það svo að þegar einhver er búinn að eyða 10-20 árum í að sérhæfa sig í tollamálum þá er ólíklegt að einhver fyrir utan Skattinn sé til í að greiða fyrir slíka þekkingu nema kannski hjá tollmiðlurum í ófaglærðum og lágt launuðum störfum.
Annað sem ég tel mikilvægt og ákvað að vera með erindi og pallborðsumræður um á síðasta aðalfundi eru öryggismál tollvarða. Ég fékk á fundinn frábæra gesti eða Helga Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknara, Grím Grímsson yfirlögregluþjón og Fjölni Sæmundsson formann Landssambands lögreglumanna, auk þess sem ég var sjálfur með stutt erindi. Á aðalfundi TFÍ kom ýmislegt fram og mjög gott hvað frummælendur voru skýrmæltir og sammála, þótt ekki sé hægt að greina frá því hér, þar sem að þessi pistill mun einnig birtast á heimasíðu TFÍ. Engu að síður er ljóst að við – líkt og lögreglumen, saksóknarar og dómarar – þurfum að velta þessum hlutum vel og vandlega fyrir okkur og til hvaða ráðstafana við þurfum að grípa. Rétt eftir aðalfund TFÍ átti ég mjög góðan, gagnlega og langan fund með nýjum varaformanni TFÍ Ingva Steini Jóhannssyni aðalvarðstjóra á Keflavíkurflugvelli. Þar tjáði hann mér að tímasetning mín og áherslur á hótanir í garð löggæslumanna hefðu sennilega ekki getað komið fram á betri tíma. Ástæðan er stigmögnun slíkra hótana á liðnum árum. Því miður hafa þessar hótanir ekki verið nógu vel skráðar, þrátt fyrir að skýrt verklag liggi fyrir um slík. Þarna þurfum við að líta í eigin barm og tilkynna allar hótanir og ofbeldisverk. Þannig er ljóst að allar fyrrgreindar stéttir munu gera kröfu um að sú breyting er orðið hefur á öryggi löggæslustétta verði metin til launa, en til að hægt sé að gera slíkar kröfur þurfa staðreyndir að liggja fyrir.
Ég veit að mörg ykkar eru þeirrar skoðunar að kannski leggjum við of mikla áherslu á hið svokallaða ‚65 ára lífeyrisaldursmál‘. Sjálfur er ég – Guði sé lof – fullur af krafti næstum 62 ára gamall, en það er ekki tilfellið hjá öllum og á þetta ekki síst við um vaktavinnufólk. Að þessu sögðu vil ég segja að ég mun leggja allan minn kraft í að við njótum sömu lífeyrisréttinda og lögreglumenn og fangaverðir. Við munum stefna fjármálaráðherra í maí og þá mun málið taka nýja stefnu. Stefnan er klár en við þurfum að útvega lögmanni okkar Daníel Isebarn viðbótarupplýsingar, sem liggja að mestu fyrir. Hvað aðalkjarasamninga varðar sé ég eiginlega enga aðra lausn en að málinu verði vísað í Gerðardóm. Varðandi stofnanasamningana lofa ég ykkur að ég verð harður í horn að taka, þótt ljóst sé strax frá upphafi slíkra viðræðna að stjórn TFÍ mun ekki takast að gera alla fullkomlega ánægða með niðurstöðun. Það er hins vegar ólíðandi að við séum skör lægra sett en aðrir starfsmenn Skattsins þegar kemur að launum og það er að mínu mati staðan í dag.
Við höfum ekki verkfallsrétt en ég lofa ykkur hér og nú og á 1. maí að ég mun berjast fyrir ykkur um hæl og hnakka á næstu vikum og á það bæði við í kjarasamningum sem og í 65 ára lífeyrisaldursmálinu.
Aðeins eina kröfu hef ég til ykkar kæru félagar og hún er að þið standið 100% á bak við stjórn TFÍ á þessum viðsjárverðu tímum og þá munum við 100% standa okkur í stykkinu að verja ykkar hagsmuni.
Aðalfundur Tollvarðafélags Íslands verður haldinn í Katrínartúni 6, föstudaginn 1. mars 2024 og hefst kl. 17:00.
Dagskrá fundar:
Þema fundarins: Öryggismál tollvarða í breyttu umhverfi
Frummælendur:
Vinnueftirlitið
Dagana 2. – 4. október sl. héldu Norrænu tollvarðafélögin (NTO/ Nordisk Tolltjenestemenns Organisasjon) sinn árlega fund í Reykjavík.
Á fundinum var farið yfir þau mál sem mestu máli skipta t.a.m. fjölda tollvarða, öryggismál, menntun þeirra, laun og annan aðbúnað hjá tollstjóraembættum Norðurlandanna. Vegna þess skelfilega ástands sem ríkir í Svíþjóð fór umtalsverður tími í að ræða öryggi tollvarða og lögreglu þar í landi og það skelfilega öryggisástand sem ríkir um allt landið núna. Að sögn formanns Sænska tollvarðafélagsins er ástæðan fyrir því ófremdarástandi sem skapast hefur sú, að landamæri landsins hafa verið hriplek í a.m.k. tvo áratugi. Fíkniefni og vopn flæða inn í landið. Þá sagði hann að ekki væri hægt að horfa fram hjá því að mikið af glæpamönnum hafi flutt til landsins á þessum tíma og fengið „frjálst spil“ til að skipuleggja sína glæpastarfsemi.
Nú er svo komið að enginn ræður neitt við neitt. Sprengingar og skotárásir eru daglegt brauð. Af því að þeir sem stunda þessi glæpaverk kunna í raun hvorki að útbúa sprengjur eða myrða það á annan hátt láti aðrir lífið en áttu í raun að deyja. Þó sé það svo núna að glæpamennirnir vilji skapa glundroðaástand til að eiga hægara með að athafna sig. Eftir ræðu formanns Sænska tollvarðafélagsins má segja að líflegar umræður hafi skapast. Samstaða varð um það að semja sameiginlega ályktun til að vara við því ástandi sem skapast hefur. Einnig var í ályktuninni hvatt til þess að leggja meiri fjármuni í að verja landamærin og þá sérstaklega með því að styrkja tollgæsluna og koma þannig í veg fyrir innflutningi á fíkniefnum og vopnum.
Öfugt við það sem er að gerast í Svíþjóð og Danmörku, er tollvörðum að fækka mjög hratt í Noregi vegna lágra launa og annarra áherslan en að styrkja tollgæslu á landamærum og má segja það sama um Finnland. Hér á landi er ástandið þannig að óhætt er að hafa áhyggjur af því, en tollvörðum hefur fækkað um 5% á einu ári og fækkar líklega meira á þessu. Á sama tíma er ópíóðafaraldur í gangi og ofbeldi eykst og skipulögð glæpastarfsemi einnig.
Tollvarðafélag Íslands tók þátt í að semja þá yfirlýsingu sem fylgir þessari grein og hvetur Alþingi til að skera ekki niður í tollgæslunni á næstu tveimur árum, heldur frekar að styrkja landamæravarnir. Þjóðfélagslegur ávinningur af sterkum landamæravörnum er margfaldur á við það sem útgjöld til málaflokksins eru.
Guðbjörn Guðbjörnsson,
formaður TFÍ
Glæpaaldan í Svíþjóð kemur tollvörðum ekki á óvart – RÚV.is (ruv.is)
Það er óskiljanlegt að á sama tíma og sænska og danska tollgæslan byggja af krafti upp tollgæsluna og lögregluna, þá sé ekkert slíkt í hyggju hér á landi. Reyndar er það svo að litlar fréttir hafa enn borist af því hvort og þá hvernig á hvaða hátt á að framfylgja aðhaldskröfu hjá tollgæslunni, sem öfugt við lögreglu á að draga saman seglin, þótt ekki verði um hrun að ræða. Frekar þyrfti að styrkja landamæravarnir en að veikja þær.
Á sama tíma flæða fíkniefni inn í landið sem aldrei fyrr. Formenn sænsku tollvarðafélaganna hafa varað við þessu ástandi ásamt félögum sínum í lögreglunni í a.m.k. 10 ár. Sem yfirmaður hjá tollgæslunni og sem formaður Tollvarðafélags Íslands, hef ég því hlustað á þessi viðvörunarorð í „steríó“ jafn lengi. Það er skrítið að til þess þurfi að koma að skera niður hjá tollgæslu, sér í lagi í miðjum ópíóðafaraldri þegar önnur fíkniefni og vopn streyma inn í landið. Spyrnum því við fótum!
Kannski að Alþingi ætti að ræða þessi mál við gerð fjárlaga og spyrja fjármálaráðherra út í þessa forgangsröðun? Allt heilvita fólk veit að samfélagslegur kostnaður af því að vanrækja tollgæslu eða lögreglu er gríðarlegur. Ég missti dóttur mína úr lyfjafíkn fyrir nokkrum árum og veit að slíkt veldur slíku sálartjóni fyrir þá sem í því lenda að þeir jafna sig aldrei. Enginn á að lenda í því sem henti mig og mína fjölskyldu eða þúsundir annarra Íslendinga.
Ég lít á það sem heilaga skyldu mína að verja landamæri Íslands með öllum tiltækum ráðum fyrir glæpalýð, vopnum og fíkniefnum. Hlustum á viðvörunarorð formanns sænskra tollvarða og gerum þetta á meðan við enn höfum stjórn á ástandinu.
Guðbjörn Guðbjörnsson
Yfirtollvörður
Kæru félagar um land allt,
Tekin hefur verið ákvörðun af Ríkinu, í samráði við heildarsamtök opinberra starfsmanna, um að framlengja heimild til frestunar á niðurfellingu orlofs, sem að hámarki getur verið 60 dagar, um eitt ár eða til 30. apríl 2024. Eftir þann dag fellur eldra orlof niður.
Ákvörðunin í heild hljóðar svo:
Í síðustu kjarasamningum aðila voru gerðar breytingar á orlofskafla samninganna þar sem samið var um að sé orlof ekki tekið á orlofsárinu falli það niður, sbr. gr. 4.6.1, nema undanþáguákvæði í gr. 4.6.2 og gr. 4.6.3 eigi við. Þá var sett inn sólarlagsákvæði í gr. 4.6.5 þar sem starfsmaður sem átti gjaldfallið orlof 1. maí 2019, allt að 60 dögum, gat nýtt þá daga til 30. apríl 2023 en að þeim tíma liðnum myndu þeir falla niður. Á samningstímanum var jafnframt tekin ákvörðun um að framlengja eldri reglu um frestun orlofs til þess að koma í veg fyrir að í gildi væru tvær reglur um niðurfellingu orlofs á sama tíma, en nýr orlofskafli tók ekki gildi fyrr en 1. maí 2020. Meðal þeirra markmiða sem búa að baki breytingu á orlofskafla kjarasamnings og framkvæmdar honum tengdum er að tryggja að starfsfólk fái notið orlofs til að ná hvíld og endurheimt frá starfi í samræmi við rétt þess þar á en safni honum ekki upp.
Þar af leiðir að eldra orlof fellur að óbreyttu niður frá og með 1. maí 2023. Í ljósi utanaðkomandi aðstæðna á samningstíma síðasta kjarasamnings er þó ljóst að hluta starfsfólks muni ekki takast að klára ótekið orlof fyrir 30. apríl 2023, vegna starfa sinna. Er því framangreind heimild til frestunar á niðurfellingu orlofsdaga framlengd til 30. apríl 2024.
Aðalfundur Tollvarðafélags Íslands verður haldinn að Grettisgötu 89, Reykjavík, föstudaginn 10. mars 2023 og hefst kl. 18:00.
Dagskrá fundar:
Það var skrítið í gær að aka Reykjanesbrautina að Keflavíkurflugvelli, leggja bílnum og ganga inn á minn gamla vinnustað í Leifsstöð í kveðjukaffi, þar sem bróðir minn Jens Guðbjörnsson, aðalvarðstjóri tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli hjá Skattinum, var að segja bless við samstarfsmenn sína eftir 41 ára starf sem skipaður embættismaður í tollgæslunni bæði í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli. Jens stóð sína plikt til 70 ára aldurs, geri aðrir betur eftir 55 ár á vinnumarkaði og hann er hvergi hættur.
Fyrstu 17 árin (1981-1998) var Jens lengst af starfandi sem tollfulltrúi í Reykjavík en síðustu 20 árin eða svo hefur hann síðan verið aðalvarðstjóri á alþjóðaflugvellinum (1998-2023). Áður en Jens var skipaður tollvörður, hafði hann verið sjómaður frá 15 ára aldri í 14 ár (1968-1981) og var lengst af stýrimaður og skipstjóri m.a. á Snorra Sturlusyni, Viðey og Jóni Vídalín. Jens var góður skipstjóri og stýrimaður og félagi góður á sjónum eins og ég fékk að kynnast sem háseti hjá honum. Kröfuharður var hann fyrsta túrinn við 15 ára gamlan sjóveikan bróður sinn; ekkert gefið eftir, ekki tomma.
Jens er með duglegustu mönnum sem ég hef kynnst, sem er nú reyndar ekki óvanalegt í okkar ætt, það skal viðurkenna. Í 55 ár hefur hann ekki aðeins mætt til vinnu eins og honum bar, heldur alltaf og allsstaðar skilað góðu og vönduðu dagsverki. Góður tollvörður er nákvæmur, samviskusamur og á stundum harður í horn að taka, en þarf einnig að geta verið mannlegur og sanngjarn, geta sýnt meðalhóf. Yfirleitt hefur Jens unnið tvöfalda vinnu, því hann var alltaf með trillu meðfram starfi og líka sem trillukarfl var hann gríðarlegur dugmikill aflamaður. Líkt og títt er í minni ætt leggur hann líf sitt og sál í starfið. Það eitt skilar viðunandi árangri.
Það eru menn eins og Jens Guðbjörnsson, sem nú fer á eftirlaun en verður áfram með trilluna sína eins lengi og hann getur, sem hafa gert íslenskt samfélag eins ríkt og það er í dag. Sívinnandi, harðduglegt fólk sem aldrei stoppar. Fólk eins og Jens og forfeður okkar bræðra eru þeir sem lagt hafa grundvöllinn að okkar auðæfum og velferðarkerfi. Til að viðhalda og bæta lífskjörin og velferðina þurfum við fleiri afburðamenn á borð við Jens. Það eru hann og hans líkar sem greiða öðrum borgaralaun og standa undir allri velferðinni.
Það virðist oft gleymast að á bak við öll fínu húsin, flottu bílana, ferðalögin til Tene, börn og barnabörn er nær alltaf þrotlaus vinna, agi, skipulag og gríðarlegur kraftur, einbeittur vilji. Jens, takk fyrir samfylgdina á Snorra Sturlusyni, Viðey og Jóni Vídalín, þar sem þú varst skipstjórinn og stýrimaðurinn minn, öruggur og staðfastur. Takk fyrir 25 ár í tollinum þar sem við höfum fylgst að þennan aldarfjórðung, sanngjarn og traustur. Fyrir hönd Tollvarðafélags Íslands og íslensks samfélags þakka ég þér og þínum líkum fyrir alla vinnuna, alla skattana og auðvitað skattheimtuna og löggæsluna á landamærum.
Fyrst og fremst vil ég þó þakka þér fyrir að hafa alltaf verið þú sjálfur. Fyrir að hafa staðið í lappirnar fyrir þig og kollega þína þegar þess þurfti við og berjast til sigurs. Á slíkum réttsýnum baráttumönnum, sem vísa veginn, þarf stéttabaráttan að halda. „Gjör rétt – þol ei órétt.“ Hafðu það gott á þínum ellilífeyri, þú hefur svo sannarlega unnið fyrir honum á öllum þessum erfiðu vöktum og aukavöktum í tvísýnu veðri á sjónum og erfiðri Reykjanesbrautinni eða við móttöku þreyttra og oft úrillra ferðalanga, þolinmóður og réttlátur.
Nú er kominn tíma til að njóta lífsins af öllum lífs og sálarkröftum og þeirrar fyrirhyggju og dugnaðar sem þú hefur alltaf sýnt.
Guðbjörn Guðbjörnsson
formaður Tollvarðafélags Íslands og yfirtollvörður
Miklar breytingar ekki nýjar af nálinni – Stiklað á stóru í merkilegri og langri sögu Tollvarðafélags Íslands
Oft á tíðum höldum við annars vegar hafi að aðeins miklar breytingar átt sér stað fyrr á tímum og hins vegar finnst okkur að alltaf séu að verða afdrifaríkar og stundum erfiðar breytingar á okkar högum og okkar starfsumhverfi. Við leiðum hins vegar aldrei hugann að því að hvoru tveggja getur auðvitað verið rétt. Lífið er oft á tíðum krappur dans við örlagadísirnar og lítið annað þýðir en að halda þeirri fótamennt áfram. Í afmælisveislum horfa menn oft til baka en sjaldan inn í framtíðina. Ástæðan er sennilega að erfitt er að spá, sérstaklega um framtíðina. Okkur sem stéttarfélagi er skylt að horfa til fortíðar því hún kemur og við þurfum að vera undirbúin. En fyrst til fortíðar.
Segja má að sýslumenn hafi gegnt hlutverki tollgæslu á tímum einokunarverslunar frá 1602-1787. Erindisbréf fyrir vaktara var gefið út af konungi árið 1778 og sinntu þeir almennri löggæslu og voru því í senn lögreglumenn og tollverðir. Á þessum tíma var mestur hluti aðflutningsgjalda hins vegar innheimtur í Danmörku. Upphaf tollheimtu á Íslandi má rekja allt til ársins 1872 þegar í gildi gekk konungleg tilskipun um innheimtu tolls af áfengum drykkjum öðrum en áfengu öli en bæjarfógetaembættið í Reykjavík annaðist tollheimtuna. Árið 1911 síðan lagður tollur á áfengi, öl, gosdrykki, tóbak, kaffi, te, sykur, síróp, súkkulaði, kakó, brjóstsykur og konfekt og eðli málsins samkvæmt færðist þá enn meira fjör í leikinn hjá tollvörðum og öðrum starfsmönnum bæjarafógeta í tollamálum.
Um 1910 er ákveðið að setja á stofn tollgæslu í Reykjavík, sem var hluti af embætti Lögreglustjórans í Reykjavík. Það var fyrst 1918 að 2 menn eru sagðir vera næturverðir við Reykjavíkurhöfn, sem voru tollverðir síns tíma. Um 1918 sáu einn til fjórir lögregluþjónar um tollgæsluþáttinn hjá lögreglustjóra en árið 1921 eru tveir fastir tollverðir ráðnir til starfa.
Embætti tollstjóra í Reykjavík var stofnað 1929 og var fyrirkomulag tollheimtu og tollgæslu svipað næstu áratugi. Stofnuð var sérstök vöruskoðunardeild árið 1934 en aðstæður fyrir starfsmenn voru erfiðar fyrstu árin þótt tollvörðum hafi fjölgað nokkuð hratt. Árið 1934 fékk tollgæslan mun betri aðstöðu en áður var í Hafnarhúsinu við hlið núverandi tollhúss, sem þá var nýbyggt.
Árið 1945 hófst farþegaflug til Keflavíkurflugvallar og á næstu árum þróaðist það áfram. Á næstu árum fór alþjóðlegt flug fram á báðum flugvöllum. Árið 1962 fluttist næstum allt millilandaflug á Keflavíkurflugvöll. Fyrst var löggæsla í höndum Sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu, en fulltrúi sýslumanns á flugvellinum stjórnaði löggæslu. Tollgæslan var einnig stofnuð 1946 og var undir fjármálaráðuneytinu en færðist síðar undir utanríkisráðuneytið eftir að Varnarliðið kom til landsins árið 1951. Saga tollgæslu á Reykjavíkurflugvelli hefst rétt fyrir árið 1946, þegar breska setuliðið yfirgefur landið. Fyrir þann tíma var um herflugvöll að ræða og aðkoma Íslendinga að lög- og tollgæslu lítil sem enginn enda flugvöllurinn girtur af með gaddavír og vaktaður.
Breytingar urðu 1957 þegar embætti tollgæslustjóra var stofnað fyrir landið allt en það embætti var lagt niður 1996. Árið 1967 byggja tollhús á 4.846,3m² (fermetra) lóð norðan Tryggvagötu, milli Naustanna og Pósthússtrætis, til þess að reisa á henni tollstöð. Aðeins fjórum árum síðar eða 1971 var tollhúsið við Tryggvagötu tekið í notkun. Húsið var alls 8.100 fermetrar en þar af 2.800 fermetra hafnarskemma. Þar var að finna embætti tollstjóra, skattstofuna og farþegaafgreiðslu fyrir farþega á Gullfoss. Þá var í húsinu miðbæjarlögreglustöðin þar sem nú er að finna tollminjasafnið.
Við tollhúsið var Steinbryggjan sem byggð 1883-1885 sem nú má sjá hægra megin við aðalinngang tollhússins. Frægast við húsið er Mósaíkverk Gerðar Helgadóttur sem sett var upp á árunum 1972 og 1973. Veggplötunar grænu eru íslenskar og úr gabbrói. Síðar þurfti að stækka húsið þegar 3. Hæðin bættist við 1993 en árið 1979 hafði fundaraðstöðu verið bætt við og skrifstofuhúsnæði þar sem farþegaafgreiðsla Gullfoss var. Fyrirhuguð varð hálfgerð hraðbraut á 3. Hæð hússins, sem betur fór kom aldrei til framkvæmdar.
Árið 1987 var embætti ríkistollstjóra stofnað og tollstjórinn í Reykjavík jafnframt settur til að gegna stöðu ríkistollstjóra. Aðeins 14 árum síðar árið 2001 var Ríkistollstjóraembættið var lagt niður m.a. til þess að auðvelda samnýtingu starfskrafta og styrkja tollgæsluna. Verkefni og starfsmenn embættisins færðust yfir til Tollstjórans í Reykjavík.
Það sama var upp á tengingum árið 2007 þegar tollumdæmum var fækkað og umdæmi tollstjórans í Reykjavík stækkað þegar Hafnarfirði, Kópavogi, Akranesi, Borgarnesi og Snæfellsnesi að Búðardal var bætti við umdæmið. Stuttu síðar eða árið 2009 varð landið síðan eitt tollumdæmi undir embætti Tollstjóra. Þann 1. janúar 2009 tóku gildi lög númer 147/2008 um breytingu á tollalögunum númer 88/2005 og fleiri lögum. Eftir breytinguna er Ísland eitt tollumdæmi sem heyrir undir embætti tollstjóra. Það var síðan 1. janúar 2020 að enn ein sameiningin varð þegar embætti Tollstjóra var sameinað Ríkisskattstjóra.
Framtíðin okkar
Þegar við hugsum til framtíðar hugsum við oft til mikilla breytinga sem urðu og þetta sjáum við glöggt á þessari sögulegu yfirferð hér að framan. Ef eitthvað er víst í þessum heimi, er það að hlutirnir breytast og þróast. Viturlegt er fyrir þá sem ekki vilja enda sem nátttröll að geta bæði að breyst sjálfir og þróast með tímanum en einnig að geta skipt um skoðun. Sjálfur hef ég á undanförnum nærri aldarfjórðungi í tollinum yfirleitt reynt að gera það besta úr hlutunum og þurft að aðlagast breytingum og oft þurft að skipta um skoðun. Þetta kemur sennilega til af því að ég er bæði maður sátta og samlyndis en einnig af því að ég sjálfur vill síst af öllu daga uppi sem steinrunninn jötunn eða risi. Ég elska breytingar, þótt ekki vilji ég gera þær breytinganna vegna. Fátt er brjóstumkennanlegra að mínu mati en að enda líf sitt við að berjast gegn vindmyllum, berjist gegn framþróun, þekkingu og sannleikanum. Einnig er sorglegt að gera breytingar sem strax þarf að færa til betri vegar eða fyrra horfs, þótt slíkt sé stundum nauðsynlegt.
Það voru 13 tollverðir sem komu saman þann 1. desember 1935 í þeim tilgangi að stofna stéttarfélag er barist gæti fyrir hagsmunamálum þessarar fámennu stéttar. Sömu tollverðir komu síðan saman og stofnuðu formlega stéttarfélag sitt viku síðar, eða hinn 8. desember 1935. Félagið fékk nafnið Tollvarðafélag Íslands (TFÍ) og skyldi starfssvæði þess vera allt landið. Félagið hefur því verið starfandi óslitið í 87 ár og er í sjálfu sér ungt í anda og sterkt þótt við séum aðeins 110 í félaginu. Ráðnir hafa verið nýir tollverðir frá því í vor og okkur hefur því aftur verið bjargað frá því að deyja út. Tollvarðafélag Íslands er í ágætri sókn að starfsandinn miklu betri en hann hefur verið á liðnum 3-5 árum. Það er ykkur að þakka kæru tollverðir og baráttuhug ykkar og sáttfýsi.
Markmið okkar stéttarfélags eru skýr og þau tiltekin í 2. gr. laga félagsins: Við eigum að að efla samvinnu meðal tollvarða, beita okkur fyrir hagsmunamálum þeirra innan starfs sem utan, meðal annars launakjörum, tryggingum, menntun, vinnutíma, vinnutilhögun, vinnuvernd og öðru því sem stuðlar að almennri velferð tollvarða. Að þessu hafa tollverðir unnið að í þessu stéttarfélagi í 87 ár og að þessu ætlum við að vinna áfram.
Fram undan eru spennandi tímar og ætlar sér félagið stóra hluti í samvinnu við okkar ágæta tollgæslustjóra, ríkisskattstjóra og mannauðssvið og yfirmenn tollgæslustjóra og Skattsins. Þarna á ég ekki síst við að gera þarf myndarlegt átak í endurmenntun tollvarða, sem hefur legið algjörlega niðri í Covid-pestinni. Samræður eru hafnar við embættið um námskeið og kynningar, sem okkur langar að halda í samstarfi við innlenda og erlenda aðila og þá bæði frá Evrópu og vestan hafs. Við viljum í sameiningu efla getu tollgæslunnar á þessum viðsjárverðu tímum þegar alþjóðleg glæpastarfsemi í miklum vexti og öryggi þjóðarinnar er vissulega ógnað. Ég finn fyrir miklum velvilja í okkar garð hjá ríkisskattstjóra og tollgæslustjóra og samvinnan er góð.
Ég mun ganga á fund fjármálaráðherra í byrjun næsta árs og kynna honum hugmyndir stjórnar félagsins. Þar er auðvitað fyrst að nefna 65 ára málið, sem snýst um að tollverðir fái sömu eftirlaunakjör og lögreglu og fangaverðir hafa nú búið við í langan tíma. Þetta er ekki aðeins réttlætis- og sanngirnismál heldur að okkar mati einnig ódýrara og skilvirkara fyrir ríkið. Eða dettur nokkrum í huga að tollverðir á aldrinum 65-70 ára geti á vöktum í raun staðið sína plikt við erfiða leit í skipum, flugvélum eða gámum eða við handtöku og jafnvel í átökum við sérþjálfaða hermenn eins og því miður hefur gerst á liðnum árum.
Allir launamenn standa nú frammi fyrir erfiðum samningum á þessu og næsta ári. Dýrtíðin í landinu eru mikil og verðbólga um 10%, sem gerir það að verkum að kaupmáttur launa lækkar hratt. Að auki hafa vextir hækkað mikið, sem gerir sérstaklega ungum fjölskyldum erfitt fyrir. Það er trú Tollvarðafélagsins að samtökum launamanna í landinu, atvinnurekendum, ríki og sveitarfélögum takist að finna viðunandi lausn. Það er í raun algjörlega víst að slík lausn finnst, því við verðum að finna lausn á þeim vanda sem steðjar að okkur.
Við tollverðir treystum í þessum málum auðvitað á slagkraft annarra því við höfum ekki frekar en aðrir embættismenn verkfallsrétt t.a.m. lögreglan eða fangaverði. Við munum hins vegar ekki láta okkar eftir liggja í samningaviðræðum en alltaf sýna sanngirni og koma vel undirbúnir til leiks, þar sem teflt verður fram rökum og staðreyndum en ekki staðlausum stöfum. Allar kröfur verða að vera raunsæjar, framkvæmanlegar því að öðrum kosti er ljóst að þær eru innistæðulausar og munu brátt fuðra upp á báli óðaverðbólgu. Þetta þekkjum við sem vorum börn og ungt fólk á árunum 1970-1990.
Kæru félagar, líkt og þið sjáið er stjórn TFÍ og formaður félagsins í fullu fjöri.
Ég óska ykkur til hamingju með daginn.
Guðbjörn Guðbjörnsson, form. TFÍ
Þann 4. september sl. var Tag des Zolls (Dagur þýsku Tollgæslunnar) haldinn í Dresden Þýskalandi. Þetta var í fjórða skiptið sem þýska Tollgæslan heldur viðlíka viðburð, en hann er haldinn annað hvert ár. Dagurinn hefur áður verið haldinn í Köln, Hamborg og Konstanz. Áætlað er að um 15.000 manns hafi komið á viðburðinn í ár, þar á meðal fulltrúi Tollvarðafélags Íslands.
Tag des Zolls er í senn hugsaður til að uppfræða almenning um hvað þýski tollurinn gerir, sem og til að vekja athygli almennings á tollinum á starfsvettvangi. Dagurinn var byggður upp í kringum sýningabása um ýmsar hliðar tollgæslu og síðan var skipulögð dagskrá allan daginn frá tíu um morguninn til sex um kvöldið. Að auki var leiksvæði fyrir yngri gesti á svæðinu. Þar var hægt að fá andlitsmálningu, keyra dótatollbíla, púsla stórt tollpúsl og margt fleira.
Gáfu sýningarbásarnir innsýn inn í flestar sýnilegar hliðar tollgæslu í Þýskalandi. Meðal annars voru sýningarbásar um:
Skiljanlega vöktu sjónrænir básar mesta athygli almennings, haldlögð vopn, smygl á fíkniefnum og þess háttar. Jafnframt voru til sýnis nokkrar bifreiðar tollgæslunnar, gáma- og farangursröntgenbílar, stjórnstöðvarbíll og bíll búinn öflugri hitamyndavél.
Skipulagða dagskráin innihélt til dæmis tónlistaratriði frá Tollbandinu (hljómsveit tollvarða í Berlín), sjálfsvarnaratriði og góðgerðaruppboð. Mesta athygli almennings vöktu þó tollgæsluhundarnir að störfum og sviðsett inngrip sérsveita Tollgæslunnar þar sem átti sér stað skotbardagi og handtökur.
Ágætu félagar!
Ég óska ykkur öllum innilega til hamingju þennan baráttudag launafólks.
Formaður og varaformaður félagsins tóku þátt í kröfugöngu með öðru forystufólki verkalýðshreyingarinnar í landinu. Þetta var fallegur og sólríkur dagur og stemmingin góð, tónlist flutt og góð ávörp flutt. Það sem stóð upp úr var í mínum augum frábær ræða Drífu Snædal, forseta ASÍ, þar sem hún hvetur launþega í öllum stéttarfélögum og bandalögum til samstöðu í komandi kjaraviðræðum sem verða ekki léttar.
Ég óska ykkur öllum góðs sumars og að þið náið að safna kröftum í sumarfríinu eftir erfiðan vetur.
Lifið heil,
Guðbjörn Guðbjörnsson
formaður TFÍ
Þar sem kjarasamningar ríkisins tóku mið af Lífskjarasamningnum hefur Samninganefnd ríkisins ákveðið að laun ríkisstarfsmanna hækki 1. apríl 2022.
Meðfylgjandi er slóð á launtöflur þær sem tóku gildi 1. apríl:
https://www.fjs.is/utgefid-efni/launatoflur/launatoflur-2022/
Héraðsdómur 22. mars – mál nr. E-2148/2021
Fallist var á greiðsluskyldu vegna lögmannskostnaður sem leiddi af saknæmum og ólögmætum ákvörðunum embættis Tollstjóra (Skatturinn) við breytingu á starfi tollvarðar og flutning í annað embætti. Jafnframt var fallist á kröfu um miskabætur vegna hinna saknæmu og ólögmætu ákvarðana embættis Tollstjóra.
Aðalfundur Tollvarðafélags Íslands verður haldinn að Grettisgötu 89, Reykjavík, föstudaginn 11. mars 2022 og hefst kl. 17:00.
Dagskrá fundar:
„Þetta var skráð í farmskrá hreinsivökvi, þetta heitir GBL á fagmálinu og ef þessi GBL vökvi er blandaður með vatni þá er þetta byrlunarvökvi sem er notaður með mjög slæmum tilgangi. Þetta var talsvert magn? Já, þetta var einn lítri, og verður að mörgum lítrum þegar það er búið að blanda þetta með vatni. Hafið þið oft fundið svona? Undanfarin ár kemur þetta reglulega fyrir að þessi vökvi er stöðvaður hjá okkur já,“ segir Ársæll Ársælsson yfirtollvörður.
Tilkynningum til lögreglu um byrlanir fjölgaði mjög í haust. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hóf samstarf við bráðamóttöku Landspítala til að bæta viðbrögð við málum sem gætu tengst byrlunum. Í október komu þrjú byrlunarmál inn á borð lögreglunnar á Akureyri vegna gruns um að þremur einstaklingum hefði verið byrlað lyf eða fíkniefni á skemmtistöðum eða heimahúsum í bænum. Blóðsýni voru tekin fljótlega eftir að grunur vaknaði um brot en við rannsókn kom í ljós að einstaklingarnir höfðu töluvert áfengismagn í blóðinu en engin merki um deifilyf eða fíkniefni.
RUV 20.02.2022 – 08:37 Dóms- og lögreglumál · Innlent
Ágætu tollverðir og aðrir starfsmenn Skattsins
Þann 1. desember sl. voru liðin 86 ár frá því að 13 tollverðir hittust árið 1935 og ákváðu að stofna Tollvarðafélag Íslands (TFÍ) í þeim tilgangi að stofna stéttarfélag er barist gæti fyrir hagsmunamálum þessarar fámennu stéttar. Formlega var félagið stofnað viku síðar eða þ. 8. desember 1935. Toll- og skattheimtumenn tilheyra elstu stétt opinberra starfsmanna í heiminum og sem dæmi um það hófu fyrstu kollegar okkar störf löngu áður en okkar tímtal hófst eða fyrir nokkur þúsund árum í Egyptalandi og Miðausturlöndum. Að mati formanns TFÍ eru stéttir toll- og skattheimtumanna hornsteinn ríkisvaldsins og siðmenningar, því án skatttekna og landamæragæslu er hætt á að lítið færi fyrir þróuðum samfélögum nútímans. Undirritaður ber enga ábyrgð á réttmæti neðangreinds texta, sem stolið var úr fyrri skrifum formanns af netinu, en ég veit af góðum sagnfræðingi innan embættisins, sem getur komið leiðréttingu á framfæri ef þurfa þykir.
Þótt stærstur hluti tolla hafi verið innheimtur í Danmörku hófst saga tollgæslu og tollheimtu á Íslandi með tilkomu sýslumanna, sem sinntu tollgæslu allt frá byrjun einokunarverslunarinnar 1602 og til loka hennar árið 1787, en á þeim tíma máttu Íslendingar ekki versla við útlendinga án leyfis konungs. Svokallaðir vaktarar fóru með störf lögreglu og tollgæslu samkvæmt erindisbréfi frá árinu 1778. Upphaf eiginlegrar tollheimtu hér á landi má rekja til ársins 1872, þegar í gildi gekk konungleg tilskipun um innheimtu tolls af áfengum drykkjum öðrum en áfengu öli. Í fyrstu annaðist bæjarfógetinn í Reykjavík tollheimtuna. Árið 1911 voru svo sett heildartollalög þar sem lagður var tollur á áfengi, öl, gosdrykki, tóbak, kaffi, te, sykur, sýróp, súkkulaði, kakó, brjóstsykur og konfekt. Um 1910 er ákveðið að setja á stofn tollgæslu í Reykjavík, sem tilheyrði Lögreglustjóranum í Reykjavík. Árið 1918 sinntu 2 menn tollgæslustörfum við Reykjavíkurhöfn en um 1918 sáu fjórir lögregluþjónar um tollgæsluþáttinn hjá lögreglustjóra. Árið 1917 voru fyrstu lög um tollgæslu samþykkt frá Alþingi en það var í raun ekki fyrr en árið 1921 sem tveir fastir tollverðir voru ráðnir til starfa. Embætti tollstjórans í Reykjavík var stofnsett 1929 og var Jón Hermannsson fyrsti tollstjórinn í Reykjavík. Síðan hafa gegnt starfinu Torfi Hjartarson, Björn Hermannsson, Snorri Olsen og nú er Sigurður Skúli Bergsson skipaður tollgæslustjóri en ríkisskattstjóri er Snorri Olsen. Líkt og sjá má hefur frá örófi alda verið mikið um skipulagsbreytinar hjá tollgæslunni og segja má að hvað það varðar séum við öllu vön. Árið 2007 fækkaði tollumdæmum úr 26 í 8 og árið 2009 var landið gert að einu tollumdæmi. Nú síðast árið 2020 voru embætti Tollstjóra og Ríkisskattstjóra sameinuð í embætti Skattsins, þar sem tollgæslustjóri er sérstök eining innan Skattsins. Vonum við tollverðir að nóg sé komið af stórum breytingum í bili og að þörf sé á að þétta raðirnar og tryggja stöðugleika.
Saga tollgæslu á Reykjavíkuflugvelli hefst rétt fyrir árið 1946, þegar breska setuliðið yfirgefur landið. Fyrir þann tíma var um herflugvöll að ræða og aðkoma Íslendinga að lög- og tollgæslu lítil sem enginn enda flugvöllurinn girtur af með gaddavír og vaktaður. Fyrsta borgaralega flugið kom frá Svíþjóð 1945 til Keflavíkurflugvallar. Flugfélag Íslands (nú Icelandair) hóf einnig flug árið 1945 en þá á Reykjavíkurflugvöll. Á næstu árum fóru einni SAS, Air France og breska flugfélagið BOAC að fljúga til landsins. Á sjötta áratug síðasta aldar var farþegaflug hér og um allan heim í miklum vexti og fór það fram á báðum flugvöllum. Árið 1967 eignuðust Íslendingar fyrstu þotuna (Boeing 727) og var Flugfélagi Íslands gert skylt að reka hana frá Keflavíkurflugvelli. Loftleiðir hættu öllu innanlandsflugi upp úr 1950 og einbeittu sér að millilandaflugi frá Reykjavíkurflugvelli með mjög góðum árangri en fluttu alla starfsemi sína á Keflavíkurflugvöll árið 1962. Keflavíkurflugvöllur (áður kallaður Meaks-flugvöllur) var afhentur Íslendingum árið 1946. Löggæsla var í höndum Sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu, en fulltrúi sýslumanns á flugvellinum stjórnaði löggæslu. Tollgæslan var stofnuð sama ár en var undir fjármálaráðuneytinu. Síðar færðist lögregla og tollgæsla undir utanríkisráðuneytið. Með sameiningu tollgæslu á Keflavíkurflugvelli og í Reykjavík árið 2009 færðist öll tollgæsla í landinu undir embætti Tollstjóra og þar með undir fjármálaráðuneytið. Starfsemi á Keflavíkurflugvelli var í byrjun samofin starfsemi bandaríska varnarliðsins en síðar uppbyggingu ört vaxandi farþegaflugs. Miklar breytingar urðu á starfsemi flugvallarins þegar varnarliðið hvarf á brott árið 2006. Ekki má gleyma tollgæslunni á Eskifirði og Seyðisfirði á Austurlandi, sem sinna m.a. millilandaferjunni og alþjóðaflugvellinum á Egilsstöðum. Þá eru mikilvægar starfsstöðvar á Akureyri, Ísafirði og í Vestmannaeyjum, sem sinna af kostgæfni skipaafgreiðslum og flugi.
Segja má að barátta TFÍ í gegnum árin hafi fært tollverði langt fram á veginn en sífellt verður að vera vakandi fyrir þáttum í starfs- og kjaraumhverfi tollvarða. Verkefni stjórnarmanna félagsins í gegnum sögu félagsins hafa verið ærin og svo mun það vera í framtíðinni. Mikilvægast í allri kjarabaráttu er samstaða félaganna og baráttuvilji, en einnig þarf að leggja áherslu á samvinnu og samtal innan félagsins sem og við vinnuveitenda okkar og fjármálaráðuneytið. Það er skoðun núverandi stjórnar TFÍ að mikilvægt sé rækta þessi sambönd og hlúa að þeim. Enn og aftur hamingjuóskir og við tollverðir bjóðum tollstarfsmönnum upp á smávægilegar veitingar í tilefni af afmælinu á starfsstöðvum, en Suðurnesjamenn þjófstörtuðu hátíðahöldunum fyrir viku síðan þ. 1. desember, sem er þó einnig hátíðardagur í augum okkar tollvarða eins og sjá má í inngangi þessa netpósts.
Með góðri kveðju,
Guðbjörn Guðbjörnsson
formaður