Dagur þýsku Tollgæslunnar (Tag des Zolls)

Þann 4. september sl. var Tag des Zolls (Dagur þýsku Tollgæslunnar) haldinn í Dresden Þýskalandi. Þetta var í fjórða skiptið sem þýska Tollgæslan heldur viðlíka viðburð, en hann er haldinn annað hvert ár. Dagurinn hefur áður verið haldinn í Köln, Hamborg og Konstanz. Áætlað er að um 15.000 manns hafi komið á viðburðinn í ár, þar á meðal fulltrúi Tollvarðafélags Íslands.
Tag des Zolls er í senn hugsaður til að uppfræða almenning um hvað þýski tollurinn gerir, sem og til að vekja athygli almennings á tollinum á starfsvettvangi. Dagurinn var byggður upp í kringum sýningabása um ýmsar hliðar tollgæslu og síðan var skipulögð dagskrá allan daginn frá tíu um morguninn til sex um kvöldið. Að auki var leiksvæði fyrir yngri gesti á svæðinu. Þar var hægt að fá andlitsmálningu, keyra dótatollbíla, púsla stórt tollpúsl og margt fleira.
Gáfu sýningarbásarnir innsýn inn í flestar sýnilegar hliðar tollgæslu í Þýskalandi. Meðal annars voru sýningarbásar um:

 • eftirlit með höfundaréttarvörðu efni (IPR)
 • fíkniefni
 • Bátadeild
 • Hundaþjálfunarskólann
 • CITES
 • Alþjóðlega samvinnu
 • Sérsveitir tollsins
 • þjálfun tollvarða
 • peningaþvættisskrifstofu
 • áfengisgjöld og tolla

Skiljanlega vöktu sjónrænir básar mesta athygli almennings, haldlögð vopn, smygl á fíkniefnum og þess háttar. Jafnframt voru til sýnis nokkrar bifreiðar tollgæslunnar, gáma- og farangursröntgenbílar, stjórnstöðvarbíll og bíll búinn öflugri hitamyndavél.

Skipulagða dagskráin innihélt til dæmis tónlistaratriði frá Tollbandinu (hljómsveit tollvarða í Berlín), sjálfsvarnaratriði og góðgerðaruppboð. Mesta athygli almennings vöktu þó tollgæsluhundarnir að störfum og sviðsett inngrip sérsveita Tollgæslunnar þar sem átti sér stað skotbardagi og handtökur.

1. maí kveðja – Ávarp formanns

Ágætu félagar!

Ég óska ykkur öllum innilega til hamingju þennan baráttudag launafólks.
Formaður og varaformaður félagsins tóku þátt í kröfugöngu með öðru forystufólki verkalýðshreyingarinnar í landinu. Þetta var fallegur og sólríkur dagur og stemmingin góð, tónlist flutt og góð ávörp flutt. Það sem stóð upp úr var í mínum augum frábær ræða Drífu Snædal, forseta ASÍ, þar sem hún hvetur launþega í öllum stéttarfélögum og bandalögum til samstöðu í komandi kjaraviðræðum sem verða ekki léttar.

Ég óska ykkur öllum góðs sumars og að þið náið að safna kröftum í sumarfríinu eftir erfiðan vetur.

Lifið heil,

Guðbjörn Guðbjörnsson
formaður TFÍ

Tollvörður vinnur mál fyrir Héraðsdómi.

Héraðsdómur 22. mars – mál nr. E-2148/2021
Fallist var á greiðsluskyldu vegna lögmannskostnaður sem leiddi af saknæmum og ólögmætum ákvörðunum embættis Tollstjóra (Skatturinn) við breytingu á starfi tollvarðar og flutning í annað embætti. Jafnframt var fallist á kröfu um miskabætur vegna hinna saknæmu og ólögmætu ákvarðana embættis Tollstjóra.

Héraðsdómur E-2148-2021-2

Aðalfundur TFÍ 2022.

Aðalfundur Tollvarðafélags Íslands verður haldinn að Grettisgötu 89, Reykjavík, föstudaginn 11. mars 2022 og hefst kl. 17:00.

Dagskrá fundar:

 • Hefðbundin aðalfundarstörf, þar sem m.a. er lögð fram skýrsla stjórnar og reikningar félagsins
 • Önnur mál

Tollverðir lögðu hald á byrlunarvökva

Tollverðir við Sundahöfn í Reykjavík stöðvuðu hraðsendingu fyrir um mánuði sem innihélt einn lítra af byrlunarvökva.

„Þetta var skráð í farmskrá hreinsivökvi, þetta heitir GBL á fagmálinu og ef þessi GBL vökvi er blandaður með vatni þá er þetta byrlunarvökvi sem er notaður með mjög slæmum tilgangi. Þetta var talsvert magn? Já, þetta var einn lítri, og verður að mörgum lítrum þegar það er búið að blanda þetta með vatni. Hafið þið oft fundið svona? Undanfarin ár kemur þetta reglulega fyrir að þessi vökvi er stöðvaður hjá okkur já,“ segir Ársæll Ársælsson yfirtollvörður.

Tilkynningum til lögreglu um byrlanir fjölgaði mjög í haust. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hóf samstarf við bráðamóttöku Landspítala til að bæta viðbrögð við málum sem gætu tengst byrlunum. Í október komu þrjú byrlunarmál inn á borð lögreglunnar á Akureyri vegna gruns um að þremur einstaklingum hefði verið byrlað lyf eða fíkniefni á skemmtistöðum eða heimahúsum í bænum. Blóðsýni voru tekin fljótlega eftir að grunur vaknaði um brot en við rannsókn kom í ljós að einstaklingarnir höfðu töluvert áfengismagn í blóðinu en engin merki um deifilyf eða fíkniefni.

RUV 20.02.2022 – 08:37 Dóms- og lögreglumál · Innlent

Afmæli TFÍ 8. desember – Pistill formanns

Ágætu tollverðir og aðrir starfsmenn Skattsins

Þann 1. desember sl. voru liðin 86 ár frá því að 13 tollverðir hittust árið 1935 og ákváðu að stofna Tollvarðafélag Íslands (TFÍ) í þeim tilgangi að stofna stéttarfélag er barist gæti fyrir hagsmunamálum þessarar fámennu stéttar. Formlega var félagið stofnað viku síðar eða þ. 8. desember 1935. Toll- og skattheimtumenn tilheyra elstu stétt opinberra starfsmanna í heiminum og sem dæmi um það hófu fyrstu kollegar okkar störf löngu áður en okkar tímtal hófst eða fyrir nokkur þúsund árum í Egyptalandi og Miðausturlöndum. Að mati formanns TFÍ eru stéttir toll- og skattheimtumanna hornsteinn ríkisvaldsins og siðmenningar, því án skatttekna og landamæragæslu er hætt á að lítið færi fyrir þróuðum samfélögum nútímans. Undirritaður ber enga ábyrgð á réttmæti neðangreinds texta, sem stolið var úr fyrri skrifum formanns af netinu, en ég veit af góðum sagnfræðingi innan embættisins, sem getur komið leiðréttingu á framfæri ef þurfa þykir.

Þótt stærstur hluti tolla hafi verið innheimtur í Danmörku hófst saga tollgæslu og tollheimtu á Íslandi með tilkomu sýslumanna, sem sinntu tollgæslu allt frá byrjun einokunarverslunarinnar 1602 og til loka hennar árið 1787, en á þeim tíma máttu Íslendingar ekki versla við útlendinga án leyfis konungs. Svokallaðir vaktarar fóru með störf lögreglu og tollgæslu samkvæmt erindisbréfi frá árinu 1778. Upphaf eiginlegrar tollheimtu hér á landi má rekja til ársins 1872, þegar í gildi gekk konungleg tilskipun um innheimtu tolls af áfengum drykkjum öðrum en áfengu öli. Í fyrstu annaðist bæjarfógetinn í Reykjavík tollheimtuna. Árið 1911 voru svo sett heildartollalög þar sem lagður var tollur á áfengi, öl, gosdrykki, tóbak, kaffi, te, sykur, sýróp, súkkulaði, kakó, brjóstsykur og konfekt. Um 1910 er ákveðið að setja á stofn tollgæslu í Reykjavík, sem tilheyrði Lögreglustjóranum í Reykjavík. Árið 1918 sinntu 2 menn tollgæslustörfum við Reykjavíkurhöfn en um 1918 sáu fjórir lögregluþjónar um tollgæsluþáttinn hjá lögreglustjóra. Árið 1917 voru fyrstu lög um tollgæslu samþykkt frá Alþingi en það var í raun ekki fyrr en árið 1921 sem tveir fastir tollverðir voru ráðnir til starfa. Embætti tollstjórans í Reykjavík var stofnsett 1929 og var Jón Hermannsson fyrsti tollstjórinn í Reykjavík. Síðan hafa gegnt starfinu Torfi Hjartarson, Björn Hermannsson, Snorri Olsen og nú er Sigurður Skúli Bergsson skipaður tollgæslustjóri en ríkisskattstjóri er Snorri Olsen. Líkt og sjá má hefur frá örófi alda verið mikið um skipulagsbreytinar hjá tollgæslunni og segja má að hvað það varðar séum við öllu vön. Árið 2007 fækkaði tollumdæmum úr 26 í 8 og árið 2009 var landið gert að einu tollumdæmi. Nú síðast árið 2020 voru embætti Tollstjóra og Ríkisskattstjóra sameinuð í embætti Skattsins, þar sem tollgæslustjóri er sérstök eining innan Skattsins. Vonum við tollverðir að nóg sé komið af stórum breytingum í bili og að þörf sé á að þétta raðirnar og tryggja stöðugleika.

Saga tollgæslu á Reykjavíkuflugvelli hefst rétt fyrir árið 1946, þegar breska setuliðið yfirgefur landið. Fyrir þann tíma var um herflugvöll að ræða og aðkoma Íslendinga að lög- og tollgæslu lítil sem enginn enda flugvöllurinn girtur af með gaddavír og vaktaður. Fyrsta borgaralega flugið kom frá Svíþjóð 1945 til Keflavíkurflugvallar. Flugfélag Íslands (nú Icelandair) hóf einnig flug árið 1945 en þá á Reykjavíkurflugvöll. Á næstu árum fóru einni SAS, Air France og breska flugfélagið BOAC að fljúga til landsins. Á sjötta áratug síðasta aldar var farþegaflug hér og um allan heim í miklum vexti og fór það fram á báðum flugvöllum. Árið 1967 eignuðust Íslendingar fyrstu þotuna (Boeing 727) og var Flugfélagi Íslands gert skylt að reka hana frá Keflavíkurflugvelli. Loftleiðir hættu öllu innanlandsflugi upp úr 1950 og einbeittu sér að millilandaflugi frá Reykjavíkurflugvelli með mjög góðum árangri en fluttu alla starfsemi sína á Keflavíkurflugvöll árið 1962. Keflavíkurflugvöllur (áður kallaður Meaks-flugvöllur) var afhentur Íslendingum árið 1946. Löggæsla var í höndum Sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu, en fulltrúi sýslumanns á flugvellinum stjórnaði löggæslu. Tollgæslan var stofnuð sama ár en var undir fjármálaráðuneytinu. Síðar færðist lögregla og tollgæsla undir utanríkisráðuneytið. Með sameiningu tollgæslu á Keflavíkurflugvelli og í Reykjavík árið 2009 færðist öll tollgæsla í landinu undir embætti Tollstjóra og þar með undir fjármálaráðuneytið. Starfsemi á Keflavíkurflugvelli var í byrjun samofin starfsemi bandaríska varnarliðsins en síðar uppbyggingu ört vaxandi farþegaflugs. Miklar breytingar urðu á starfsemi flugvallarins þegar varnarliðið hvarf á brott árið 2006. Ekki má gleyma tollgæslunni á Eskifirði og Seyðisfirði á Austurlandi, sem sinna m.a. millilandaferjunni og alþjóðaflugvellinum á Egilsstöðum. Þá eru mikilvægar starfsstöðvar á Akureyri, Ísafirði og í Vestmannaeyjum, sem sinna af kostgæfni skipaafgreiðslum og flugi.

Segja má að barátta TFÍ í gegnum árin hafi fært tollverði langt fram á veginn en sífellt verður að vera vakandi fyrir þáttum í starfs- og kjaraumhverfi tollvarða. Verkefni stjórnarmanna félagsins í gegnum sögu félagsins hafa verið ærin og svo mun það vera í framtíðinni. Mikilvægast í allri kjarabaráttu er samstaða félaganna og baráttuvilji, en einnig þarf að leggja áherslu á samvinnu og samtal innan félagsins sem og við vinnuveitenda okkar og fjármálaráðuneytið. Það er skoðun núverandi stjórnar TFÍ að mikilvægt sé rækta þessi sambönd og hlúa að þeim. Enn og aftur hamingjuóskir og við tollverðir bjóðum tollstarfsmönnum upp á smávægilegar veitingar í tilefni af afmælinu á starfsstöðvum, en Suðurnesjamenn þjófstörtuðu hátíðahöldunum fyrir viku síðan þ. 1. desember, sem er þó einnig hátíðardagur í augum okkar tollvarða eins og sjá má í inngangi þessa netpósts.

Með góðri kveðju,

Guðbjörn Guðbjörnsson
formaður

Húsnæði viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu

Framkvæmdasýsla ríkisins hefur undanfarin ár starfað með fjármála- og dómsmálaráðuneyti að hugmyndum um sameiginlegt húsnæði fyrir alla helstu viðbragðsaðila landsins sem starfa á höfuðborgarsvæðinu. Þetta eru:

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu
Ríkislögreglustjóri
Landhelgisgæslan
Slysavarnarfélagið Landsbjörg
Tollgæslan
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins
Neyðarlínan 112

Vinna í ítarlegri forathugun verkefnisins stóð fram til ársins 2020. Einskorðaðist hún í upphafi við að finna hentugt húsnæði fyrir löggæsluaðila. Verkefnið var síðan stækkað og gert ráð fyrir öllum viðbragðsaðilum á einum stað. Árið 2020 var aukinn þungi sett í verkefnið, enda mæddi mikið á viðbragðsaðilum á árinu 2020. Þörfin fyrir hentugt og nútímalegt húsnæði varð öllum ljós.

Að lokinni forathugun gerði FSR markaðskönnun , þar sem auglýst var eftir 30 þúsund fermetra lóð á ákveðnum svæðum í Reykjavík. Niðurstaða könnunarinnar var listi yfir valkosti sem skoðaðir voru nánar.

FSR gaf í nóvember út frumathugunarskýrslu um verkefnið. Samtímis hefur fjármálaráðuneytið átt í samningaviðræðum við lóðarhafa.

Markmið verkefnisins er að finna hagkvæma lausn á húsnæðismálum viðbragðsaðila til langrar framtíðar. Í forathugun var meðal annars skoðuð samlegð sem fólgin er í því að staðsetja löggæslu og viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu á einum stað. Ljóst er að með því fyrirkomulagi er unnt að auka samstarf þeirra á milli auk þess sem samnýting rýma yrði talsverð. Þá myndi nýtt húsnæði vera hagnýtara og svara betur kröfum nútímans en húsnæði sem þessir aðilar hafa nú yfir að ráða. Þá er ljóst að á ögurstundu er mikill kostur að þeir aðilar sem vernda líf og eignir landsmanna séu staðsettir í sama húsnæðinu.

Félagsfundur TFÍ

Félagsfundur TFÍ var haldinn fimmtudaginn 10. júní sl. í sal Rauðakross Íslands Firði Hafnarfirði.
Góð mæting var á fundinn en um 34 félagsmenn mættu.

Á dagskrá var:

 1. Vaktabreytingar vegna styttingu vinnuvikunnar – umræður
 2. Ný heimasíða TFÍ sem og nýr Orlofsvefur kynnt
 3. Félagsmönnum kynnt möguleg kaup TFÍ á nýju sumarhúsi fyrir félagsmenn (kynning & upplýsingar um fjármögnun o.s.frv.)
 4. Önnur mál

Vaktavinnufólk – takið þátt í að meta betri vinnutíma!

Ert þú búin(n) að taka þátt í könnun vegna styttingar vinnuvikunnar á vaktavinnustöðum sem samið var um í kjarasamningum opinberu stéttarfélaganna vorið 2020? Nú er innleiðing á þessum mestu breytingum á vinnutíma opinberra starfsmanna í áratugi langt komin og skiptir miklu að fylgjast með hvernig til tekst.

Nú þurfum við sem stóðum að þessum samningum, bæði samtök launafólks og opinberir launagreiðendur, þína hjálp. Við stöndum nú fyrir spurningakönnunum meðal vaktavinnufólks þar sem viðhorf til og árangur breytinganna er mældur. Það skiptir miklu að sem flestir þeirra sem eru í vaktavinnu taki þátt í könnuninni til að fanga viðhorf til breytinganna svo hægt sé að meta árangurinn sem best.

Gallup sér um gerð könnunarinnar sem send var fyrr í mánuðinum á vinnunetfang vaktavinnufólks hjá ríki og sveitarfélögum. Við hvetjum alla sem hafa fengið könnunina til að svara svo við fáum sem nákvæmastar niðurstöður. Það tekur ekki langan tíma að svara könnuninni.

Að könnuninni standa: ASÍ, BHM, BSRB, Fíh, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu.

Ef spurningar vakna má hafa samband við tomas@gallup.is og karl@bsrb.is.

Orlofskostir 2021, aðrir en sumarhús.

Til þess að njóta neðangreindra kjara þarf að skrá sig inn á orlofsvef félagsins og ganga frá kaupum þar.

Gjafabréf Icelandair

að andvirði 25.000 kr. Verð til félagsmanna 15.000 kr.
– Hver félagsmaður á rétt á kaupum á 4 gjafabréfum á ári.
Nánar um hvernig á að bóka með gjafabréfi og um skilmála gjafabréfa – https://www.icelandair.is/flights/book-gift-certificate/

Útilegukortið

að andvirði 19.900 kr. Verð til félagsmanna 16.000 kr.
– Hver félagsmaður á rétt á kaupum á einu korti á ári.
Nánar um Útilegukortið – https://utilegukortid.is/

Veiðikortið

að andvirði 8.900 kr. Verð til félagsmanna 6.000 kr.
– Hver félagsmaður á rétt á kaupum á einu korti á ári.
Nánar um Veiðkortið – http://veidikortid.is/is/

Orlofsstyrkur

Orlofssjóður TFÍ veitir félagsmönnum styrk til greiðslu á innlendum og/eða erlendum orlofstengdum kostnaði á orlofstímabilinu 1. maí til 15. september 2021. Hver félagsmaður á rétt á einni úthlutun hvert ár og er hver styrkur að hámarki að andvirði 40.000 kr. Ekki er veittur styrkur á þjónustu sem TFÍ eða önnur stéttarfélög bjóða félögum sínum.

Umsækjendur verða að framvísa löglegum reikningi/kvittun stílað á nafn og kennitölu félagsmanns sem sækir um. Styrkur er veittur eftirá og leitast verður við að greiða þá út svo fljótt sem auðið er. Umsóknum skal skilað í tölvupósti á netfangið   jon.ragnarsson@skatturinn.is   þar sem fram kemur tilefni umsóknar ásamt viðhengi af reikningi/kvittun.
Styrkir eru veittir fyrir eftirfarandi kostnaði:
• Gistikostnaður erlendis í orlofi
• Gistingu innanlands utan orlofshúss félagsins, þ.e. hótel, gistihús, tjaldstæði o.s.frv.
• Leigu á hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagni.
• Skoðunarferðir, t.d. hvalaskoðun, fuglaskoðun o.þ.h.
• Skipulagðar gönguferðir með viðurkenndum ferðaþjónustuaðilum eða félögum.
• Skipulagðar hópferðir, hestaferðir, siglingar, veiðileyfi o.s.frv.
 
Aðrar takmarkanir á ofangreindum kostum; félagsmaður þarf að hafa greitt til félagsins a.m.k. 6 undanliðna mánuði.

Reglur um úthlutun orlofshúsa TFÍ

Reglur um úthlutun orlofshúsa TFÍ

 1. gr.

Fullgildir greiðandi félagsmenn njóta forgangs við úthlutun orlofshúsa TFÍ.

 1. gr.

Réttur til úthlutunar á orlofshúsi í sumar og páskaleigu byggist á félagsaldri í TFÍ (eftir að tveggja ára félagsaðild er náð)  að frádregnum fyrri úthlutunum orlofshúsa.

 1. gr.

Úthlutunartímabil sumars er frá byrjun júní til enda ágúst samkvæmt ákvörðun orlofsnefndar.

 1. gr.

Páskaviku er úthlutað sérstaklega á sama hátt og sumarleigu. Útleiga og úthlutanir eru auglýstar á heimasíðu félagsins.

 1. gr.

Þeir sem sótt hafa um hús en ekki fengið úthlutað fara á biðlista sem úthlutað er eftir falli einhver frá sinni úthlutun.

 1. gr.

Ef umsókn berst ekki um einhverja/r af tilteknum vikum í sumarúthlutun verður húsinu úthlutað til þess sem fyrstur óskar en þó að teknu tilliti til þeirra sem áttu umsóknir en fengu ekki úthlutun. Leigu skal inna af hendi eigi síðar en 4 vikum fyrir ætlaðan leigutíma, að öðrum kosti getur leigutaki ekki gert ráð fyrir að ganga að úthlutun sinni vísri.

 1. gr.

Ef umsækjandi sem greitt hefur leigugjald óskar að hætta við leigu fær hann endurgreitt svo framalega að húsið leigist öðrum.

 1. gr.

Að loknum sumartíma, frá byrjun september til loka maí að páskum undanskildum, gildir venjuleg vetrarleiga en þá er leigu skipt upp í helgar og virkra daga leigu, fimmtud/sunnud og sunnud/fimmtud. Umsóknir um vetrarleigu eru afgreiddar í þeirri röð sem þær berast.

 1. gr.

Verði félagsmaður áskynja eða valdi tjóni á húsbúnaði eða húseignum félagsins skal sá hinn sama tilkynna slíkt strax til orlofsnefndar TFÍ.

Uppfært 27.03.2017

Ný stjórn TFÍ

Á aðalfundi TFÍ 10. mars sl. tók við ný stjórn félagsins. Guðbjörn Guðbjörnsson var kosinn formaður og tekur við af Birnu Friðfinnsdóttur fráfarandi formanni. Auk Birnu fóru úr stjórn þeir Ólafur Ingibersson og Hallgrímur Færseth. Stjórn TFÍ þakkar þeim Birnu, Ólafi og Hallgrími fyrir störf þeirra í þágu félagsins undanfarin ár.

Tveir nýir stjórnarmenn voru kosnir í stjórn félagsins, þau Guðlaugur Hávarðarson og Guðrún Halldórsdóttir auk Huldu G. Gunnarsdóttur sem varamanns.

Stjórn TFÍ er því skipuð eftirtöldum aðilum fyrir starfsárið 2021-2023:

 • Guðbjörn Guðbjörnsson, formaður.
 • Guðlaugur Hávarðsson, varaformaður.
 • Jón Gísli Ragnarsson, gjaldkeri.
 • Guðrún Halldórsdóttir, ritari.
 • Trausti Freyr Reynisson, meðstjórnandi.

Varamenn:

 • Sif Guðmundsdóttir.
 • Hulda G. Gunnarsdóttir.

Betri vinnutími – stytting vinnuvikunnar

Starfsfólk og stjórnendur eru hvött til að kynna sér ítarlegar upplýsingar sem er að finna á heimasíðunum:
http://www.betrivinnutimi.is
http://www.styttri.is

Verkefnastjórn betri vinnutíma í vaktavinnu leggur áherslu á að allt starfsfólk og allir stjórnendur kynni sér meðfylgjandi myndbönd fyrir umbótasamtal.
Enn fremur er lagt til að stjórnendur sendi sínu starfsfólki meðfylgjandi myndbönd fyrir umbótasamtal og miðli þeim sem víðast.

Myndbönd.