https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/06/10/litid_frumkvodlastarf_i_smygli/
Author Archives: Vefstjóri Tollvarðafélagsins
Yfirlýsing frá Tollvarðafélagi Íslands
Yfirlýsing frá Tollvarðafélagi Íslands vegna metfjölda haldlagðra fíkniefna við tolleftirlit á Keflavíkurflugvelli árið 2025.
Tollvarðafélag Íslands vill vekja sérstaka athygli á þeim árangri sem tollgæslan hefur náð í baráttunni gegn fíkniefnasmygli á landamærum Íslands á árinu 2025. Miðað við nýjustu tölur frá lögreglunni á Suðurnesjum, sem birtust í grein á mbl.is þann 1. júní 2025, hefur aldrei áður meira magn af kókaíni verið haldlagt á jafn skömmum tíma á Keflavíkurflugvelli. Þessar tölur endurspegla mikilvægi öflugrar tollgæslu við Keflavíkurflugvöll.
Á fyrstu fimm mánuðum ársins 2025 hafa tollverðir lagt hald á eftirfarandi magn af fíkniefnum við tolleftirlit á Keflavíkurflugvelli:
- 40,26 kg af kókaíni, sem er metfjöldi á fyrstu fimm mánuðum ársins
- 9,78 lítrar af kókaínvökva
- 20.576 töflum af oxycontin og eftirlíkingum þess, sem eru mjög ávanabindandi og geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið
- 109,648 kg af kannabisefnum, sem er verulegt magn miðað við heildartölur ársins 2024, þegar samtals voru haldlögð 172,706 kg af kannabisefnum
Tollvarðafélag Íslands vill leggja sérstaka áherslu á mikilvægi samstarfs við lögregluna á Suðurnesjum sem hefur verið gott og farsælt, sem og önnur lögregluembætti víðsvegar um landið. Öflugt tolleftirlit og gott samstarf við lögreglu er lykilatriði í baráttunni við skipulagða brotastarfsemi sem nær þvert yfir landamæri og hefur skaðleg áhrif fyrir samfélagið í heild.
Það er jafnframt brýnt að tollgæslan njóti á hverjum tíma skýran og stöðugan stuðning frá stjórnvöldum. Til að tryggja öflugt og árangursríkt tolleftirlit þarf að ríkja virkt og markvisst samtal milli stjórnvalda og tollgæslunnar um þau fjölbreyttu og síbreytilegu verkefni sem tollgæslan tekst á við í sínum störfum.
Tollvarðafélag Íslands vill koma á framfæri þökkum og hvatningu til þeirra tollvarða sem standa vaktina við krefjandi og mikilvægt tolleftirlit á Keflavíkurflugvelli sem og þakkir og hvatningarorð til tollvarða sem sinna tolleftirliti í höfnum landsins og við eftirlit með vöruinnflutningi með góðum árangri.
Starf þeirra er ómissandi þáttur í því að tryggja öryggi og velferð almennings.
F.h. Tollvarðafélags Íslands,
Ingvi Steinn Jóhannsson formaður
Yfirlýsing frá Tollvarðafélagi Íslands
Tollvarðafélagið vill lýsa yfir mikilli ánægju með framúrskarandi vinnu tollvarða á Keflavíkurflugvelli, sem komu í veg fyrir einn stærsta innflutning af stórhættulegum ólöglegum lyfjum sem nokkru sinni hefur verið haldlagt hér á landi.
Um var að ræða 20.000 falsaðar Oxycontin-töflur sem innihéldu ekki oxýkódon, heldur afar öflugt og lífshættulegt efni sem kallast Nitazene. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni getur efnið verið mörg hundruð sinnum sterkara en oxýkódon og jafnvel brotabrot af einni töflu getur reynst mannskætt. Sú staðreynd að þessi nýju og hættulegu efni hafi náð til Íslands á innan við tveimur mánuðum frá því þeirra varð fyrst vart í Evrópu undirstrikar alvarleika málsins og mikilvægi öflugs tolleftirlits á landamærum.
Við í Tollvarðafélagi Íslands viljum leggja ríka áherslu á mikilvægi starfa tollvarða á landamærum. Tollverðir gegna lykilhlutverki í að tryggja öryggi samfélagsins með því að koma í veg fyrir að hættuleg efni berist inn í landið. Tollverðir vinna við krefjandi aðstæður þar sem fagmennska, þekking og skjót viðbrögð ráða úrslitum. Mikilvægt er að tollgæslan búi yfir þeim úrræðum, tæknibúnaði, starfsaðstöðu og mönnun sem þarf til að takast á við þær síbreytilegu og alvarlegu ógnir sem skapast á landamærum af hálfu skipulagðrar brotastarfsemi og nýlegt dæmi sýnir glöggt hversu öflug og vel ígrunduð viðbrögð þurfa að vera til staðar til að verja almannaöryggi.
Tollvarðafélagið vill jafnframt lýsa yfir ánægju með það góða samstarf sem ríkt hefur milli tollgæslu og lögreglunnar á Suðurnesjum, sem og við önnur lögregluembætti um allt land. Slík samvinna er nauðsynleg til að bregðast við vaxandi hættu af hálfu skipulagðrar brotastarfsemi sem sýnir skeytingarleysi á öryggi eða velferð fólks í samfélaginu.
Tollvarðafélagið mun áfram standa vörð um öryggi samfélagsins af ábyrgð og festu. Við erum stolt af tollvörðum landsins og störfum þeirra í þágu almannaheilla.
Ingvi Steinn Jóhannsson,
Formaður TFÍ
Andrés Ari lætur af störfum eftir tæp 42 ár hjá tollgæslu.
Tollvarðafélag Íslands (TFÍ) vill þakka Andrési Ara Ottóssyni, aðstoðaryfirtollverði á Keflavíkurflugvelli, fyrir frábært starf og ómetanlegt framlag til tollgæslunnar í tæp 42 ár.
Andrés Ari hóf störf í tollgæslunni árið 1983 í Reykjavík. Árið 1986 fékk Andrés Ari embætti hjá Sýslumanninum í Keflavík, sem var síðan flutt yfir á Keflavíkurflugvöll árið 2007 þar sem hann hefur sinnt starfi sem aðstoðaryfirtollvörður.
Föstudaginn 28.mars sl. var síðan haldin kveðjuveisla á Keflavíkurflugvelli þar sem bæði fyrrverandi og núverandi samstarfsmenn komu saman til að þakka honum fyrir samstarfið og óska honum velfarnaðar. Vel var mætt af gestum í kveðjuveisluna sem er til marks um það góða samstarf sem Andrés Ari hefur átt með samferðamönnum sínum í tollgæslunni gegnum tíðina.
Andrés Ari hefur verið stór hluti af góðri heild, bæði með sinni fagmennsku og með þátttöku í félagsstarfi, sem hefur gert vinnustaðinn að enn betri stað. Hann hefur ávallt unnið af alúð og metnaði og verið góður samstarfsfélagi. Ávallt verið tilbúinn að hjálpa til og leiðbeina þegar þörf var á þekkingu hans í verkefnum innan tollgæslunnar. Þá hefur hann verið virkur í félagsmálum TFÍ, meðal annars sem stjórnarmaður, í kjörstjórn sem og orlofsnefnd. Hann hefur ávallt verið tilbúinn að bjóða sig fram til góðra verka og lagt sitt af mörkum fyrir samstarfsfólk sitt. Það hefur því verið ómetanlegt fyrir félag eins og TFÍ að eiga slíkan félagsmann að gegnum tíðina.
Andrési Ara er þakkað kærlega fyrir samstarfið og óskumvið honum alls hins besta í næsta kafla lífsins eftir farsælan starfsferil.
F.h. TFÍ,
Ingvi Steinn Jóhannsson, formaður
Gerðardómur – Launahækkanir skv. gildandi kjarasamningi
Gildandi kjarasamningur aðila, ásamt bókunum og fylgiskjölum framlengist frá 1. apríl 2024 til 31. mars 2028 með þeim breytingum og fyrirvörum sem í samkomulagi þessu felst og fellur þá úr gildi án frekari fyrivara.
Laun, skv. gr. 1.1.1, hækki sem hér segir, nema annað leiði af launatöflum sem fylgja samkomulagi þessu:
1.4.2024 3,50% eða 23.750 kr.
1.4.2025 3,50% eða 23.750 kr.
1.4.2026 3,50% eða 23.750 kr.
1.4.2027 3,50% eða 23.750 kr.
Nýr og glæsilegur orlofsvefur TFÍ í loftið.
Nýr orlofsvefur (Frímann) hefur verið tekinn í notkun. Viðmótið er notendavænna en það var, en til glöggvunar fylgja hér leiðbeiningar
Aðalfundur TFÍ 2025
Aðalfundur Tollvarðafélags Íslands verður haldinn í Dynjanda, Katrínartúni 6, fimmtudaginn 6. mars 2025 og hefst kl. 18:00.
Dagskrá fundar:
Hefðbundin aðalfundarstörf
Önnur mál
Samráðsgátt – Mál nr. S-24/2025
Sverri og Snorra gert að greiða 1,1 milljarð
Sverri og Snorra gert að greiða 1,1 milljarð
Snorri Guðmundsson, sem oft er kenndur við rafrettuverslunina Póló, og Sverrir Þór Gunnarsson, sem kenndur hefur verið við rafrettuverslunina Drekann, voru nú rétt í þessu dæmdir í Héraðsdómi Reykjaness til að greiða 1,1 milljarð í sekt í stóra sígarettusmyglmálinu svokallaða. Þá hlutu þeir einnig tveggja ára skilorðsbundinn dóm fyrir þátt sinn í málinu.
„Þetta er risastórt tollalagabrot“ – 740 milljón króna sígarettusmygl
www.mbl.is/frettir/innlent/2024/12/09/thetta_er_risastort_tollalagabrot/
Tveir karlmenn um fertugt hafa verið ákærðir fyrir stórfelld tollalagabrot með því að hafa komið sér hjá því að greiða 740 milljónir í tolla og skatta vegna innflutnings á sígarettum og tóbaki á árunum 2015 til 2018. Skráðu þeir vörurnar sem prótín eða pappír á tollskýrslum.
Íhuga að fá úrskurð gerðadóms
Pistill fomanns á 1. maí 2024
Ágætu tollverðir
Það er frekar óvenjulegt að stjórn og samninganefnd standi í því á sama tíma og það í kringum 1. maí að standa í samningum bæði í aðalkjara- og stofnanasamningum. Reyndar er það svo að samningar allra opinberra starfsmanna eru nú lausir og því miður virðist lausn ekki í sjónmáli, þar sem ákveðnar kröfur eru uppi t.a.m. varðandi jöfnun launa á milli launamarkaða, þ.e. hins opinbera og almenns vinnumarkaðar. Þarna er sérstaklega talað um að ‚einkeypisstéttir‘ eigi eitthvað inni og við teljumst víst til þeirra. Staða okkar er hins vegar í mörgu tilliti erfiðari, þar sem við sem fagstétt höfum aðeins einn vinnuveitanda eða tollgæsluna, Skattinn. Áður fyrr gátu tollverðir þó flakkað á milli embætta. Að auki er það svo að þegar einhver er búinn að eyða 10-20 árum í að sérhæfa sig í tollamálum þá er ólíklegt að einhver fyrir utan Skattinn sé til í að greiða fyrir slíka þekkingu nema kannski hjá tollmiðlurum í ófaglærðum og lágt launuðum störfum.
Annað sem ég tel mikilvægt og ákvað að vera með erindi og pallborðsumræður um á síðasta aðalfundi eru öryggismál tollvarða. Ég fékk á fundinn frábæra gesti eða Helga Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknara, Grím Grímsson yfirlögregluþjón og Fjölni Sæmundsson formann Landssambands lögreglumanna, auk þess sem ég var sjálfur með stutt erindi. Á aðalfundi TFÍ kom ýmislegt fram og mjög gott hvað frummælendur voru skýrmæltir og sammála, þótt ekki sé hægt að greina frá því hér, þar sem að þessi pistill mun einnig birtast á heimasíðu TFÍ. Engu að síður er ljóst að við – líkt og lögreglumen, saksóknarar og dómarar – þurfum að velta þessum hlutum vel og vandlega fyrir okkur og til hvaða ráðstafana við þurfum að grípa. Rétt eftir aðalfund TFÍ átti ég mjög góðan, gagnlega og langan fund með nýjum varaformanni TFÍ Ingva Steini Jóhannssyni aðalvarðstjóra á Keflavíkurflugvelli. Þar tjáði hann mér að tímasetning mín og áherslur á hótanir í garð löggæslumanna hefðu sennilega ekki getað komið fram á betri tíma. Ástæðan er stigmögnun slíkra hótana á liðnum árum. Því miður hafa þessar hótanir ekki verið nógu vel skráðar, þrátt fyrir að skýrt verklag liggi fyrir um slík. Þarna þurfum við að líta í eigin barm og tilkynna allar hótanir og ofbeldisverk. Þannig er ljóst að allar fyrrgreindar stéttir munu gera kröfu um að sú breyting er orðið hefur á öryggi löggæslustétta verði metin til launa, en til að hægt sé að gera slíkar kröfur þurfa staðreyndir að liggja fyrir.
Ég veit að mörg ykkar eru þeirrar skoðunar að kannski leggjum við of mikla áherslu á hið svokallaða ‚65 ára lífeyrisaldursmál‘. Sjálfur er ég – Guði sé lof – fullur af krafti næstum 62 ára gamall, en það er ekki tilfellið hjá öllum og á þetta ekki síst við um vaktavinnufólk. Að þessu sögðu vil ég segja að ég mun leggja allan minn kraft í að við njótum sömu lífeyrisréttinda og lögreglumenn og fangaverðir. Við munum stefna fjármálaráðherra í maí og þá mun málið taka nýja stefnu. Stefnan er klár en við þurfum að útvega lögmanni okkar Daníel Isebarn viðbótarupplýsingar, sem liggja að mestu fyrir. Hvað aðalkjarasamninga varðar sé ég eiginlega enga aðra lausn en að málinu verði vísað í Gerðardóm. Varðandi stofnanasamningana lofa ég ykkur að ég verð harður í horn að taka, þótt ljóst sé strax frá upphafi slíkra viðræðna að stjórn TFÍ mun ekki takast að gera alla fullkomlega ánægða með niðurstöðun. Það er hins vegar ólíðandi að við séum skör lægra sett en aðrir starfsmenn Skattsins þegar kemur að launum og það er að mínu mati staðan í dag.
Við höfum ekki verkfallsrétt en ég lofa ykkur hér og nú og á 1. maí að ég mun berjast fyrir ykkur um hæl og hnakka á næstu vikum og á það bæði við í kjarasamningum sem og í 65 ára lífeyrisaldursmálinu.
Aðeins eina kröfu hef ég til ykkar kæru félagar og hún er að þið standið 100% á bak við stjórn TFÍ á þessum viðsjárverðu tímum og þá munum við 100% standa okkur í stykkinu að verja ykkar hagsmuni.
Aðalfundur TFÍ 2024
Aðalfundur Tollvarðafélags Íslands verður haldinn í Katrínartúni 6, föstudaginn 1. mars 2024 og hefst kl. 17:00.
Dagskrá fundar:
- Hefðbundin aðalfundarstörf, sbr. 5. gr. laga félagsins, þar sem m.a. er lögð fram skýrsla stjórnar og reikningar félagsins
- Önnur mál
Þema fundarins: Öryggismál tollvarða í breyttu umhverfi
Frummælendur:
- Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari
- Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn
- Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna
- Guðbjörn Guðbjörnsson, formaður Tollvarðafélags Íslands og yfirtollvörður
Eflum heilbrigða vinnustaðamenningu
Vinnueftirlitið
Sameiginleg yfirlýsing formanna Norrænu tollvarðafélaganna (NTO)
Fundur Norrænu tollvarðafélaganna
Dagana 2. – 4. október sl. héldu Norrænu tollvarðafélögin (NTO/ Nordisk Tolltjenestemenns Organisasjon) sinn árlega fund í Reykjavík.
Á fundinum var farið yfir þau mál sem mestu máli skipta t.a.m. fjölda tollvarða, öryggismál, menntun þeirra, laun og annan aðbúnað hjá tollstjóraembættum Norðurlandanna. Vegna þess skelfilega ástands sem ríkir í Svíþjóð fór umtalsverður tími í að ræða öryggi tollvarða og lögreglu þar í landi og það skelfilega öryggisástand sem ríkir um allt landið núna. Að sögn formanns Sænska tollvarðafélagsins er ástæðan fyrir því ófremdarástandi sem skapast hefur sú, að landamæri landsins hafa verið hriplek í a.m.k. tvo áratugi. Fíkniefni og vopn flæða inn í landið. Þá sagði hann að ekki væri hægt að horfa fram hjá því að mikið af glæpamönnum hafi flutt til landsins á þessum tíma og fengið „frjálst spil“ til að skipuleggja sína glæpastarfsemi.
Nú er svo komið að enginn ræður neitt við neitt. Sprengingar og skotárásir eru daglegt brauð. Af því að þeir sem stunda þessi glæpaverk kunna í raun hvorki að útbúa sprengjur eða myrða það á annan hátt láti aðrir lífið en áttu í raun að deyja. Þó sé það svo núna að glæpamennirnir vilji skapa glundroðaástand til að eiga hægara með að athafna sig. Eftir ræðu formanns Sænska tollvarðafélagsins má segja að líflegar umræður hafi skapast. Samstaða varð um það að semja sameiginlega ályktun til að vara við því ástandi sem skapast hefur. Einnig var í ályktuninni hvatt til þess að leggja meiri fjármuni í að verja landamærin og þá sérstaklega með því að styrkja tollgæsluna og koma þannig í veg fyrir innflutningi á fíkniefnum og vopnum.
Öfugt við það sem er að gerast í Svíþjóð og Danmörku, er tollvörðum að fækka mjög hratt í Noregi vegna lágra launa og annarra áherslan en að styrkja tollgæslu á landamærum og má segja það sama um Finnland. Hér á landi er ástandið þannig að óhætt er að hafa áhyggjur af því, en tollvörðum hefur fækkað um 5% á einu ári og fækkar líklega meira á þessu. Á sama tíma er ópíóðafaraldur í gangi og ofbeldi eykst og skipulögð glæpastarfsemi einnig.
Tollvarðafélag Íslands tók þátt í að semja þá yfirlýsingu sem fylgir þessari grein og hvetur Alþingi til að skera ekki niður í tollgæslunni á næstu tveimur árum, heldur frekar að styrkja landamæravarnir. Þjóðfélagslegur ávinningur af sterkum landamæravörnum er margfaldur á við það sem útgjöld til málaflokksins eru.
Guðbjörn Guðbjörnsson,
formaður TFÍ
Glæpaaldan í Svíþjóð kemur tollvörðum ekki á óvart.
Glæpaaldan í Svíþjóð kemur tollvörðum ekki á óvart – RÚV.is (ruv.is)
Það er óskiljanlegt að á sama tíma og sænska og danska tollgæslan byggja af krafti upp tollgæsluna og lögregluna, þá sé ekkert slíkt í hyggju hér á landi. Reyndar er það svo að litlar fréttir hafa enn borist af því hvort og þá hvernig á hvaða hátt á að framfylgja aðhaldskröfu hjá tollgæslunni, sem öfugt við lögreglu á að draga saman seglin, þótt ekki verði um hrun að ræða. Frekar þyrfti að styrkja landamæravarnir en að veikja þær.
Á sama tíma flæða fíkniefni inn í landið sem aldrei fyrr. Formenn sænsku tollvarðafélaganna hafa varað við þessu ástandi ásamt félögum sínum í lögreglunni í a.m.k. 10 ár. Sem yfirmaður hjá tollgæslunni og sem formaður Tollvarðafélags Íslands, hef ég því hlustað á þessi viðvörunarorð í „steríó“ jafn lengi. Það er skrítið að til þess þurfi að koma að skera niður hjá tollgæslu, sér í lagi í miðjum ópíóðafaraldri þegar önnur fíkniefni og vopn streyma inn í landið. Spyrnum því við fótum!
Kannski að Alþingi ætti að ræða þessi mál við gerð fjárlaga og spyrja fjármálaráðherra út í þessa forgangsröðun? Allt heilvita fólk veit að samfélagslegur kostnaður af því að vanrækja tollgæslu eða lögreglu er gríðarlegur. Ég missti dóttur mína úr lyfjafíkn fyrir nokkrum árum og veit að slíkt veldur slíku sálartjóni fyrir þá sem í því lenda að þeir jafna sig aldrei. Enginn á að lenda í því sem henti mig og mína fjölskyldu eða þúsundir annarra Íslendinga.
Ég lít á það sem heilaga skyldu mína að verja landamæri Íslands með öllum tiltækum ráðum fyrir glæpalýð, vopnum og fíkniefnum. Hlustum á viðvörunarorð formanns sænskra tollvarða og gerum þetta á meðan við enn höfum stjórn á ástandinu.
Guðbjörn Guðbjörnsson
Yfirtollvörður
1. maí pistill formanns
Kæru félagar um land allt,
Framlenging á heimild til frestunar á niðurfellingu orlofs
Tekin hefur verið ákvörðun af Ríkinu, í samráði við heildarsamtök opinberra starfsmanna, um að framlengja heimild til frestunar á niðurfellingu orlofs, sem að hámarki getur verið 60 dagar, um eitt ár eða til 30. apríl 2024. Eftir þann dag fellur eldra orlof niður.
Ákvörðunin í heild hljóðar svo:
Í síðustu kjarasamningum aðila voru gerðar breytingar á orlofskafla samninganna þar sem samið var um að sé orlof ekki tekið á orlofsárinu falli það niður, sbr. gr. 4.6.1, nema undanþáguákvæði í gr. 4.6.2 og gr. 4.6.3 eigi við. Þá var sett inn sólarlagsákvæði í gr. 4.6.5 þar sem starfsmaður sem átti gjaldfallið orlof 1. maí 2019, allt að 60 dögum, gat nýtt þá daga til 30. apríl 2023 en að þeim tíma liðnum myndu þeir falla niður. Á samningstímanum var jafnframt tekin ákvörðun um að framlengja eldri reglu um frestun orlofs til þess að koma í veg fyrir að í gildi væru tvær reglur um niðurfellingu orlofs á sama tíma, en nýr orlofskafli tók ekki gildi fyrr en 1. maí 2020. Meðal þeirra markmiða sem búa að baki breytingu á orlofskafla kjarasamnings og framkvæmdar honum tengdum er að tryggja að starfsfólk fái notið orlofs til að ná hvíld og endurheimt frá starfi í samræmi við rétt þess þar á en safni honum ekki upp.
Þar af leiðir að eldra orlof fellur að óbreyttu niður frá og með 1. maí 2023. Í ljósi utanaðkomandi aðstæðna á samningstíma síðasta kjarasamnings er þó ljóst að hluta starfsfólks muni ekki takast að klára ótekið orlof fyrir 30. apríl 2023, vegna starfa sinna. Er því framangreind heimild til frestunar á niðurfellingu orlofsdaga framlengd til 30. apríl 2024.
Aðalfundur TFÍ 2023
Aðalfundur Tollvarðafélags Íslands verður haldinn að Grettisgötu 89, Reykjavík, föstudaginn 10. mars 2023 og hefst kl. 18:00.
Dagskrá fundar:
- Hefðbundin aðalfundarstörf, sbr. 5. gr. laga félagsins, þar sem m.a. er lögð fram skýrsla stjórnar og reikningar félagsins
- Önnur mál